Íslandsbanki var hins vegar ekki eina íslenska fjármálafyrirtækið sem hafði aðkomu að útboðinu. Þegar liggur fyrir að aðilar tengdir Íslenskum verðbréfum keyptu hluti í útboðinu og eftirspurn var slík að skerða þurfti úthlutun til stórra fjárfesta.

Fimm íslensk fjármálafyrirtæki komu að útboðinu 22. mars síðastliðinn. Fossar markaðir voru í hlutverki söluráðgjafa. Söluaðilar voru ACRO verðbréf, Íslensk verðbréf og Landsbankinn. Verðbréfamiðlun Íslandsbanka var svo skráð sem einn umsjónaraðila útboðsins.

Fréttablaðið hefur nú sent þessum fimm fjármálafyrirtækjum eftirfarandi erindi vegna útboðsins:

Óskað er svara við eftirfarandi spurningum varðandi [fyrirtækið] vegna útboðs á hlutum ríkisins í Íslandsbanka 22. mars síðastliðinn:

  1. Hve margir fjárfestar keyptu hlutabréf í gegnum fyrirtækið í útboðinu?
  2. Fyrir hve háa fjárhæð voru hlutir í útboðinu seldir í gegnum fyrirtækið?
  3. Hve margir kaupendur hlutabréfa í útboðinu fengu lán hjá fyrirtækinu til kaupanna?
  4. Hversu hátt hlutfall kaupa hlutabréfa í útboðinu í gegnum fyrirtækið var með lánsfjármögnun?
  5. Keyptu einhverjir starfsmenn fyrirtækisins hlutabréf í Íslandsbanka í útboðinu og ef svo, hve margir?

Svara er óskað eins fljótt og auðið er.

Fréttablaðið mun birta og fjalla um svörin þegar þau berast.