Fjárfestingafélagið Óskabein, sem er meðal annars í eigu Gests B. Gestssonar, stjórnarmanns í VÍS, hefur bætt við hlut sinn í tryggingafélaginu með kaupum þremur milljónum hluta á genginu 11,4 krónur, eða fyrir samtals 34,2 milljónir króna.

Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar en kaupin voru gerð á grundvelli framvirks samnings og nemur eignarhlutur Óskabeins í VÍS formi framvirkra samninga, samanlagt 42,8 milljónir hluta, um 2,2 prósentum.

Til viðbótar á Óskabein, sem er einnig í eigu Andra Gunnarsson og Fannars Ólafsson, sem eru meðal annars í hópi eigenda að Keahótelum, og Engilberts Hafsteinssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá WOW air, tæplega 2,5 prósenta hlut í VÍS í eigin nafni.

Samtals nemur eignarhlutur Óskabeins í tryggingafélaginu því um 4,7 prósentum. Miðað við núverandi gengi bréfa VÍS er sá hlutur metinn á um 1.040 milljónir króna.

Fjárfestingafélagið Óskabein er einnig á meðal hluthafa í Sýn, færsluhirðingarfyrirtækinu KORTA og í hugbúnaðarfyrirtækinu Endor sem var selt fyrr á þessu ári til Sýn.

Í lok síðasta mánaðar seldu hjónin Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir og Guðmundur Örn Þórðarson allan 7,25 prósenta hlut sinn í VÍS fyrir 1.550 milljónir króna. Félag þeirra, K2B fjárfestingar, var fyrir söluna þriðji stærsti hluthafi tryggingafélagsins.

Hlutabréf VÍS hafa lækkað um 0,44 prósent í rúmlega 50 milljóna króna veltu í Kauphöllinni það sem af er degi og standa núna í 11,35 krónum á hlut. Gengi bréfa félagsins hafa hækkað um 12 prósent frá áramótum og nemur markaðsvirði VÍS um 22 milljörðum króna.