Nokkur af stærri innflutningsfyrirtækjum landsins hafa sent Samkeppniseftirlitinu beiðni um upplýsingar vegna sáttar Eimskips við eftirlitið, sem birt var um miðjan júní. Þar hafi Eimskip viðurkennt alvarleg brot á samkeppnislögum sem fólust í samráði við keppinautinn Samskip, meðal annars um skiptingu markaða eftir stærri viðskiptavinum og um álagningu gjalda og afsláttarkjör í flutningaþjónustu. Fram kemur í tilkynningu frá Félagi Atvinnurekenda að rannsókn á þætti Samskipa stendur enn og hefur fyrirtækið ekki viðurkennt samkeppnisbrot.

Upplýsingabeiðnin snýr að því hvort upplýsingar um viðkomandi fyrirtæki komi fram í gögnum rannsóknar Samkeppniseftirlitsins á samráði skipafélaganna og er farið fram á aðgang að gögnum málsins í heild sinni, en til vara þeim gögnum sem varða einstaka fyrirtæki.

Páll Rúnar Kristjánsson, lögmaður FA, segir að brotin sem Eimskip hefur viðurkennt séu alvarleg og fyrirtækin hljóti að skoða bótarétt sinn. Félagið fari fram á að fá aðgang að gögnum málsins hjá Samkeppnisefnirlitinu í heild sinni en til vara þeim gögnum sem varði einstaka fyrirtæki.