Samkvæmt nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands hækkaði vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu um 2,5 prósent milli janúar og febrúar. Þetta er mesta hækkun sem hefur sést frá því í apríl í fyrra og talsvert meiri hækkun en í janúar þegar íbúðaverð hækkaði um 1,7 prósent sem þótti einnig mikil hækkun.

Frá því Covid-faraldurinn hófst hefur íbúðaverð hækkað mikið.

Fjölbýli hækkaði um 2,4 prósent milli mánaða og sérbýli um 2,7 prósent. 12 mánaða hækkun fjölbýlis mælist nú 21,4 prósent og sérbýlis 26,8 prósent, en vegin hækkun íbúðarhúsnæðis alls mælist 22,5 prósent. 12 mánaða vegin árshækkun er nú komin á svipaðan stað og þegar mest lét árið 2017. 12 mánaða hækkun sérbýlis hefur aftur á móti ekki verið meiri síðan í febrúar 2006 þegar hækkunin mældist 32 prósent.

Íbúðir hækka hraðar í verði en flest annað

Almennt verðlag án húsnæðiskostnaðar hækkaði um 1,26 prósent milli mánaða í febrúar og hækkaði raunverð íbúða, það er verð íbúða umfram annað almennt verðlag, um 1,2 prósent milli mánaða. Þetta er örlítið minni hækkun en mældist milli mánaða í janúar (1,5 prósent) en engu að síður talsverð. Verðbólga hefur aukist mikið síðustu mánuði og er það ekki eingöngu vegna hækkandi húsnæðisverðs, heldur hækka nú allir undirliðir hennar með þeim afleiðingum að raunhækkun íbúðaverðs er minni en ella.

Á heildina litið hefur íbúðaverð hækkað með vaxandi hraða undanfarna mánuði.

Sé litið til annarra verðvísitalna sést að íbúðaverð hækkar nú hraðar en bæði laun og byggingarkostnaður. Að íbúðaverð hækki hraðar en byggingarkostnaður hvetur til íbúðauppbyggingar, enda hefur íbúðum í byggingu fjölgað á höfuðborgarsvæðinu. Það má því gera ráð fyrir að framboð fari að aukast á markaðnum til þess að anna eftirspurn sem virðist dvína hægar en spáð var.

Íbúðaverð hefur aldrei verið hærra í samanburði við byggingarkostnað en einmitt nú, sé horft til þróunar frá aldamótum, og því kominn fram mikill hvati til uppbyggingar.

Íbúðaverð hækkar mun hraðar en vísitala byggingarkostnaðar.

Íbúðaverð að teknu tilliti til launa hátt, hefur þó verið hærra

Íbúðaverð mælist einnig hátt að teknu tilliti til launa og hefur hækkun íbúðaverðs umfram hækkun launa aukist síðasta árið. Að íbúðaverð hækki hraðar en laun bendir til þess að erfiðara geti orðið fyrir fólk að fjármagna húsnæðiskaup og hækkanirnar því ekki sjálfbærar til lengri tíma. Þetta er breyting frá því sem verið hefur, en frá miðju ári 2017 fram til marsmánaðar 2021 mældist hækkun launa meiri en hækkun íbúðaverðs og staða kaupenda því nokkuð góð. Þrátt fyrir miklar hækkanir íbúðaverðs að undanförnu, hefur íbúðaverð að teknu tilliti til launa (vísitala íbúðaverðs raunvirt með vísitölu launa), ekki náð sama stigi og var þegar mest lét á árunum fyrir hrun.

Þrátt fyrir hækkun íbúðaverðs fækkar heimilum sem meta húsnæðiskostnað sem þunga byrði. Tölurnar eru frá 2021 en hærri vextir Seðlabankans kunna að breyta þessari mynd.

Færri heimili líta á húsnæðiskostnað sem þunga byrði

Hagstofan birti í gær upplýsingar um hlutfall og fjölda heimila sem meta húsnæðiskostnað sinn sem þunga byrði. Gögnin eru fengin úr lífskjararannsókn Hagstofunnar og þau nýjustu eiga við stöðuna í fyrra. Í ljós kemur að bæði hlutfall fólks og fjöldinn sem metur húsnæðiskostnað sem þunga byrði hefur lækkað. Í fyrra mátu 12 prósent heimila, eða um 18 þúsund heimili, húsnæðiskostnað sem þunga byrði. Hlutfallið lækkar um 3 prósentustig frá árinu 2020. Gera má ráð fyrir að lækkun vaxta á tímabilinu hafi dregið talsvert úr húsnæðiskostnaði margra og vegið upp á móti hækkun húsnæðisverðs. Staðan er talsvert önnur nú. Vextir fara hækkandi en það virðist þó ekki duga eitt og sér til þess að slá á þá miklu eftirspurn sem nú ríkir.