Um er að ræða skattheimtu af úttektum séreignarsparnaðar. Séreignarsparnaður er eign sem fólki gefst kostur á að byggja upp yfir starfsævina. Ríkið setur hvata til slíks sparnaðar með því að hægt er að greiða inn í slíkan sparnað af launum án þess að greiða staðgreiðslu af fjárhæðinni.

Á móti skattleggur ríkið útgreiðslur úr séreignarsparnaði sem laun séu. Ólafur bendir á að við úttekt sé séreignarsparnaður eign sem samanstendur af inngreiðslum, en þó sérstaklega af ávöxtun séreignarsparnaðarins yfir langt tímabil.

Ólafur segir þetta vera skýrt dæmi um ofsköttun eldri borgara, þar sem miðþrep staðgreiðsluskatts er um 38 prósent en fjármagnstekjuskattur sé 22 prósent. Áður hefur Ólafur bent á að mörg dæmi eru um að íslenska ríkið veiti skattaívilnanir án nokkurrar kröfu um endurgreiðslu síðar. Má þar nefna margs konar stóriðju, erlenda kvikmyndaframleiðendur og fleiri sem notið hafa mikilla skattaívilnana hér á landi.

Eini hópurinn sem krafinn er um endurgreiðslu vegna slíkra ívilnana séu eldri borgarar og óvíst hvort slík skattheimta stenst lög.

Í grein sinni gerir Ólafur líka að umfjöllunarefni stórfelldar skerðingar í almannatryggingakerfinu og bendir enn fremur á að þrátt fyrir skýr lagaákvæði um að ellilífeyrir skuli taka mið af launaþróun, þó þannig að hann hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs, virðist föst regla að hækkunin heldur ekki í við launaþróun.

Orðrétt skrifar Ólafur: „Ákvarðanir stjórnvalda í þessu efni sýnast ógagnsæjar um annað en þá reglu að víkja frá skýrum lagafyrirmælum. Þessi háttur, að lífeyrisgreiðslur fylgi ekki launaþróun, felur í raun í sér skerðingu á greiðslum ár frá ári og aukna gliðnun tekna.“

Í þessu felst að svo virðist sem það sem helst sé hægt að treysta á varðandi framkvæmd ríkisins á þessum lögum sé að ríkið brjóti skýr lagaákvæði.