Fjárfestingafélag Örvars Kærnesteds hagnaðist um 545 milljónir króna árið 2020 samanborið við 2,6 milljónir króna árið áður. Árið 2018 tapaði fjárfestingfélagið 89 milljónum króna. Þetta kemur fram í ársreikningum.

Mestu munar um fyrir hagnað Riverside Capital að í fyrra fékk fjárfestingafélagið 529 milljónir króna í hlutdeildartekjur en þær námu 12 milljónum króna árið áður.

Vaxtatekjur námu 13 milljónum árið 2020 og söluhagnaður hlutabréf 14 milljónum króna.

Eignir fjárfestingafélagsins jukust úr 964 milljónum árið 2019 í 2.083 milljónir árið 2020. Eigið fé Riverside Capital jókst úr 389 milljónum króna árið 2019 í 933 milljónir árið 2020.

Örvar Kærnested er sjálfsætt starfandi fjárfestir sem meðal annars hefur setið í stjórn TM.
Mynd/TM

Riverside Capital skuldaði móðurfélaginu sínu 494 milljónir króna árið 2020 og átti eftir að greiða 550 milljónir vegna hlutafjárkaupa. Á næsta ári ber því að greiða 100 milljónir króna í afborganir.

Fjárfestingafélagið á hlut í S121 sem er langsamlega stærsti hluthafi Stoða með 65 prósenta hlut. Sá hlutur var bókfærður á 993 milljónir króna árið 2020.

Fram hefur komið í fréttum að á árinu 2019 lögðu Riverside Capital ásamt Helgafelli og Eini bréf sín í TM í S121 og í kjölfarið greiddi umrætt eignarhaldsfélag fyrir ný bréf í Stoðum með bréfunum í TM.

Stoðir högnuðust um 7,56 milljarða króna árið 2020. Hagnaður félagsins kemur nær einvörðungu til vegna tekna af skráðum fjárfestingaverðbréfum sem voru um 7,46 milljarðar á árinu 2020. Eigið fé Stoða nam tæplega 31,8 milljörðum króna í árslok 2020 og var félagið skuldlaust.

Stoðir eiga um 15 prósenta hlut í Símanum, um níu prósenta hlut í Kviku banka og um fimm prósenta hlut í Arion banka ásamt öðrum fjárfestingum. Stoðir komu til dæmis að fjármögnun Play fyrir skemmstu með því að leggja hinu verðandi flugfélagi til um 635 milljónir króna og eignuðust við það um 8,4 prósenta hlut.

Riverside Capital á einnig helmingshlut í fasteignafélaginu Esjuborg sem bókfærður var á 534 milljónir króna og erlenda hlutafjáreign sem bókfærð var á 484 milljónir króna árið 2020.

Örvar, sem er sjálfstætt starfandi fjárfestir, sat í stjórn TM frá árinu 2012 þar til tryggingafélagið sameinaðist nýlega Kviku banka. Örvar situr í stjórn Stoða.

Hann starfaði á árunum 1999–2008 hjá Kaupþingi banka og síðar hjá Stodir UK Ltd.