Netverslun hefur aukist umtalsvert, sérstaklega þegar kemur að mat- og dagvörum og kauphegðun neytenda hefur tekið stakkaskiptum. Um leið og neytendur eru orðnir líklegri til að panta vörur líkt og lyf og jafnvel áfengi á netinu er mikilvægt að huga að auknu öryggi við dreifingu slíkra vara

Nú þegar netverslun er orðin almenn má segja að kauphegðun hafi breyst. Það kallar á víðtækari þjónustu en áður og Pósturinn er í stakk búinn til að veita hana. Þegar kemur að því að dreifa viðkvæmum varningi á borð við lyf og áfengi þarf að ganga úr skugga um að viðtakandi hafi sannarlega aldur eða heimild til að taka á móti sendingunni. Við hjá Póstinum leggjum áherslu á að viðkvæmar vörur séu fluttar með rekjanlegum hætti og berist réttum kaupanda en það er gert með því að nýta rafræna auðkenningu,“ segir Ósk Heiða Sveinsdóttir, forstöðumaður þjónustu- og markaða hjá Póstinum.

Pósturinn býður nú upp á aukið öryggi í verslun með lyf, áfengi og aðrar viðkvæmar vörur.

„Kosturinn við rafræna auðkenningu er öryggi og rekjanleiki,“ bætir Ósk Heiða við. „Til dæmis þegar lyf eru send úr apótekinu til viðskiptavinar sem staðfestir móttöku með rafrænni auðkenningu. Það fylgir því nefnilega mikil ábyrgð að dreifa varningi sem þessum. Við ætlum okkur áfram að vera traustur samstarfsaðili þegar kemur að dreifingu en hér er komin betri leið til að meðhöndla viðkvæmar vörur. Í því sambandi gegnir rafræn auðkenning lykilhlutverki.“

Ósk Heiða segir að framþróun í þjónustu eigi að vera taktföst og spennandi, markmiðið sé alltaf að koma til móts við væntingar viðskiptavina „Áfram verður lögð áhersla á þróun stafrænna og snertilausra leiða og þá skiptir ábyrg dreifing miklu máli. Innlend netverslun mun án efa halda áfram að styrkjast þegar fram líða stundir og krafan um betra aðgengi að fleiri vörum verður háværari. Við höfum verið í miklum samskiptum við netverslanir og neytendur og fylgst grannt með umræðunni í samfélaginu hvað þetta varðar. Við finnum fyrir eftirspurn eftir þessari þjónustu og við viljum mæta henni,“ segir Ósk Heiða að lokum.