For­stjóri Icelandair telur að raf- og vetnis­drifnar flug­vélar muni gjör­bylta innan­lands­flugi. Fyrir­tækið skoðar að taka slíkar vélar í notkun fyrir lok árs 2030. Orku­skipti í flug­sam­göngum munu skapa ný og spennandi tæki­færi fyrir Ís­land sem á­fanga­stað.

Kol­efnislosun er stærsti ein­staki á­hrifa­þáttur flugs á um­hverfið. Í lok síðasta árs settu al­þjóða­sam­tök flug­fé­laga sér mark­mið um kol­efnis­hlut­leysi fyrir árið 2050. Sú á­kvörðun þýðir í raun að orku­skipti í flug­sam­göngum um allan heim eru form­lega hafin og munu hafa um­fangs­miklar breytingar í för með sér fyrir fyrir­tæki og fram­leið­endur í greininni.

Icelandair ætlar sér að vera í farar­broddi á þessu sviði. Bogi Nils Boga­son, for­stjóri flug­fé­lagsins, segir Ís­land vera í á­kveðinni kjör­stöðu en það sé al­farið undir okkur komið að grípa þau sóknar­færi sem skapast þegar heil at­vinnu­grein af þessari stærðar­gráðu skiptir út jarð­efna­elds­neyti fyrir sjálf­bært elds­neyti, vetni og raf­magn.

„Við höfum verið að vinna að þessum breytingum í meira en ára­tug. Árið 2012 mótuðum við um­hverfis­stefnu sem teygir anga sína inn í alla okkar starf­semi. Eftir henni höfum við unnið allar götur síðan.“

Bogi segir mikil­vægt að gera sér grein fyrir að orku­skipti í flug­sam­göngum séu ekki hluti af ein­hverri fjar­lægri fram­tíð, heldur bráð­nauð­syn­leg þróun sem sé þegar hafin. „Ef fyrir­tæki í flug­rekstri ætla að laga sig að þessum breytta veru­leika þá er ekki eftir neinu að bíða. Hvað okkur varðar hérna á Ís­landi þá erum við í ein­stakri stöðu með okkar hreinu orku. En það þýðir líka að við þurfum öll að vera á tánum. Inn­viða­upp­bygginging verður að eiga sér stað sam­hliða. Það er mjög mikil­vægt að allir geri sér grein fyrir því.“

Á síðasta ári kynnti Icelandair upp­færð mark­mið í lofts­lags­málum. Fé­lagið stefnir nú að 50 prósenta sam­drætti í losun kol­díoxíðs á tonn­kíló­metra fyrir árið 2030 saman­borið við árið 2019.

Bogi segir fé­lagið vinna að nokkrum þáttum sam­tímis svo unnt verði að ná þessum mark­miðum. „Þar má fyrst nefna flota­endur­nýjun og notkun á sjálf­bæru elds­neyti. Þetta snýst ekki bara um raf­magn heldur verða aðrir orku­gjafar að koma til líka.”

„Sjálf­bært flug­véla­elds­neyti er til að mynda sá orku­gjafi sem talið er að muni knýja tvo þriðju hluta flugs í heiminum. Til þess að iðnaðurinn ná þessum mark­miðum. Það er sá orku­gjafi sem mun gegna lykil­hlut­verki í því að draga úr notkun á jarð­efna­elds­neyti í milli­landa­flugi á næstu ára­tugum.“

Fyrstu skref orku­skipta í flugi verða í styttri flug­leiðum. Að mati Boga mun raf­magn og vetni henta full­kom­lega í þeim til­vikum. „Við erum að horfa til þess að fara yfir á raf­magn og vetni í innan­lands­fluginu og við erum að horfa til þess að fara yfir á slíkar vélar fyrir lok þessa ára­tugar.“

Bogi segir mikil­vægt að átta sig á muninum á þessum ó­líku orku­gjöfum. Sjálf­bært elds­neyti er annað­hvort lí­felds­neyti eða ra­f­elds­neyti sem meðal annars má vinna úr grænu vetni.

„Að skipta yfir á vélar sem eru að fullu raf- eða vetnis­drin­far er af öðrum toga. Þar er um að ræða alveg nýja tækni og nýja nálgun. Hvað sjálf­bæra elds­neytið varðar er þróunin drifin á­fram af öðrum kröftum en hreinni tækni­byltingu vélanna sjálfra.”

„Flug­fé­lög eru þegar farin að nota sjálf­bært elds­neyti til í­blöndunar við hefð­bundið flug­véla­elds­neyti en kostnaðurinn er hár og fram­boðið tak­markað. Það er tæki­færi til að vinna slíkt ra­f­elds­neyti hér­lendis úr endur­nýjan­legum orku­lindum. Þannig að það eru ekki bara raf- eða vetnis­drifnar flug­vélar sem skapa tæki­færi fyrir okkur hér á landi.“

Icelandair hóf á síðasta ári sam­starf við tvö ný­sköpunar­fyrir­tæki, banda­ríska fyrir­tækið Uni­ver­sal Hydrogen og sænska fyrir­tækið Heart Aerospace, sem eru að þróa annars vegar vetnis- og hins vegar raf­knúnar flug­vélar fyrir innan­lands­flug.

Fyrr á þessu ári gerði Icelandair svo sam­komu­lag við Lands­virkjun um þróun lausna í orku­skiptum. „Þar erum við að horfa til verk­efna um nýtingu á sjálf­bæru elds­neyti, grænu vetni eða raf­magni, sem orku­bera í flugi.

Allt miði þetta að því að orku­skipti í flug­sam­göngum komi til með að gjör­bylta bæði innan­lands­flugi á Ís­landi og stöðu Ís­lands sem á­fanga­staðar, að mati for­stjórans.

„Það sem er svo spennandi fyrir okkur hér tengist í raun sögunni og hvernig milli­landa­flug hefur þróast með Ís­land sem þennan tengi­punkt á milli heims­álfa. Með til­komu orku­skipta sjáum við fyrir okkur að sagan muni endur­taka sig. Að Ís­land verði á­fram þessi tengi­punktur. Ekki bara vegna legu landsins heldur líka vegna hrein­leika orkunnar. Þetta mun gerast hraðar í innan­lands­fluginu, en með tíð og tíma færist þetta yfir í milli­landa­flugið og þá verður Ís­land í kjör­stöðu til að grípa tæki­færin sem felast í því.“

„Í raun stöndum við frammi fyrir svipuðu sóknar­færi nú og þegar við byggðum upp á­fanga­staðinn Ís­land á sínum tíma. Við hjá Icelandair viljum að minnsta kosti horfa á þetta þannig. Bæði sem tæki­færi og um leið skyn­sam­lega um­hverfis­væna þróun þar sem við viljum og ætlum okkur að leiða. Við stöndum á á­kveðnum tíma­mótum og stjórn­völd verða að gæta þess að beina greininni inn í þennan græna far­veg. Með já­kvæðum hvötum frekar en á­lögum.“

Hvað tæki­færin í innan­lands­fluginu varðar á­réttar Bogi að Ís­land hafi alla burði til að taka for­ystu. „Þar erum við líka að tala um kol­efnis­lausar flug­sam­göngur, ekki bara kol­efnis­hlut­lausar.“

„En svo er líka annar flötur á nýtingu nýrra orku­gjafa í flugi en þessi aug­ljósi um­hverfis­þáttur. Það snýr að kostnaði við hvert flug­sæti. Það gefur auga­leið að ef við keyrum innan­lands­flugið á hreinni orku sem fram­leidd er hér á landi þá mun það hafa já­kvæð á­hrif á kostnað. Við sjáum þá fram á að keyra okkar flota á ó­dýrara elds­neyti en við gerum í dag. Þessir já­kvæðu rekstrar­legu þættir munu að sjálf­sögðu á endanum koma okkar við­skipta­vinum til góða og auka tíðni ferða. Allir þessir þættir eru mjög á­kjósan­legir fyrir strjál­býlt og fá­mennt land eins og Ís­land.“

Að öllu saman­lögðu telur Bogi fulla á­stæðu til að taka orku­skipti í flug­sam­göngum föstum tökum. „Sam­starfið er al­gjört lykil­at­riði þegar kemur að þessum breytingum. Þegar tækni­hindrunum hefur verið rutt úr vegi krefjast orku­skipti fyrst og síðast sam­starfs við yfir­völd, flug­mála­stjórnir og fleiri aðila á borð við flug­velli til að tryggja þróun inn­viða í sam­ræmi við tækni­fram­farir. Þá skiptir öllu máli að allir gangi í takt,“ segir Bogi Nils.