Markmið Menntasjóðsins Fremri er að virkja hugvit og styrkja mannauð Origo til framtíðar á sviði nýsköpunar og verðmætasköpunar. Er sjóðnum ætlað að auka hraða í uppbyggingu á þekkingu og reynslu í þróun, sölu- og markaðssetningu á hugbúnaðarvörum og tæknilausnum.

„Origo á allan sinn árangur að þakka þeirri þekkingu starfsfólks og því umhverfi sem við sköpum til að viðhalda, auka og nýta þá þekkingu. Fjárfesting í steypu eða vélum er því ekki strategísk fyrir félagið en fjárfesting í þekkingu og starfsumhverfi, bæði fýsísku og tæknilegu, er lykilþáttur í árangri og framtíð þessa félags gagnvart starfsfólki, viðskiptavinum og hluthöfum,“ segir Jón Björnsson, forstjóri Origo.

Vegferð Tempo sýnir skýrt hvað öflugt starfsfólk, íslenskt hugvit og stuðningur getur búið til mikil verðmæti í hugbúnaði.

Farsæl saga Tempo uppsprettan

Menntasjóðurinn Fremri varð til vegna söluhagnaðar sem Origo fékk frá sölu sinni á Tempo síðla árs 2022. Tempo sérhæfir sig í tímaskráningum í þróunartólinu JIRA og byrjaði sem hugmynd hjá starfsfólki Origo árið 2008.

„Við teljum því mikilvægt að við tökum hluta af þeim fjármunum sem við höfum skapað með Tempo og nýtum til aukinnar þekkingaröflunar og styrkjum Origo sem fyrirtæki þar sem besta fólkið vill vinna. Vegferð Tempo sýnir skýrt hvað öflugt starfsfólk, íslenskt hugvit og stuðningur getur búið til mikil verðmæti í hugbúnaði. Origo heldur áfram að leggja mikla áherslu á nýsköpun og hugbúnaðarþróun sem hluta af menningu og rekstri félagsins og sjóðurinn er enn ein stoðin sem sett hefur verið á laggirnar í þeirri von að fleiri hugbúnaðarvörur geti átt jafn farsælan feril og Tempo," segir Jón ennfremur.

Styrkir veittir til náms

Markmið styrkveitinga úr Menntasjóði Origo er að stuðla að eflingu mannauðs hjá Origo með því að gera starfsfólki og framtíðar starfsfólki kleift að sækja sér fjölbreytta og alþjóðlega menntun í hæsta gæðaflokki. Til að ná slíkum markmiðum verða veittir styrkir úr sjóðnum til menntunar starfsmanna Origo og dótturfélaga. Einnig getur Origo átt frumkvæði að styrkúthlutun til valinna einstaklinga til að styrkja ákveðna hæfni eða þætti starfseminnar. Origo getur auk þess ákveðið að styrkja ákveðna nemendur/framtíðarstarfsmenn Origo til að sækja framhaldsnám á háskólastigi.