Origo er efst í vitund hjá almenningi þegar spurt er um upplýsingatækni, samkvæmt mælingu hjá Gallup. „Við höfðum um nokkurra ára skeið mælt Nýherja með sams konar hætti en ekki náð sama árangri. Það sýndi sig því fljótt að sú ákvörðun að breyta um nafn og skerpa fókusinn heppnaðist,“ segir Gísli Þorsteinsson, markaðsstjóri fyrirtækisins. Origo varð til við sameiningu Nýherja, TM Software og Applicon í upphafi ársins.

Hann segir að ný nálgun hafi verið farin í ýmsum markaðs- og söluaðgerðum í kjölfarið að hulunni var svipt af nafninu. „Við lögðum til að mynda áherslu á tenginguna við upplýsingatækni og jukum verulega ásýnd okkar í ímyndarsterkum miðlum eins og í sjónvarpi í kringum kynningu á nýja nafninu. Um leið unnum við nýja birtingastefnu fyrir félagið og lausnir þess í samvinnu við Ennemm auglýsingastofu.“

Fólk horfir enn á sjónvarp

„Ég hafði svona hæfilega miklar væntingar til þess að keyra auglýsingaefni í eins miklum mæli í sjónvarpi; stóð í þeirri meiningu að enginn horfði lengur á sjónvarp og allir væru bara á samfélagsmiðlum og á netinu og var ekkert sérstaklega sannfærður í upphafi. En ég sá fljótlega að þessi nálgun skilaði árangri og í raun betri tölum, þegar við skoðuðum mælingar, en ég þorði að vona.“

Gísli segir að nýju vörumerki fylgi oft nýjar og ferskar áherslur. „Við finnum fyrir miklum áhuga á fyrirtækinu en gleymum ekki rótunum og öllu því góða sem félögin þrjú bjuggu yfir. Við reyndum að taka það með okkur um leið og við vildum skapa nýjan nýjan tón og persónuleika fyrir nýtt félag,“ segir Gísli. Hann segir að þrátt fyrir að félögin þrjú, sem voru sameinuð, væru á margan hátt ólík hefðu þau unnið lengi saman. Meðal annars voru þau öll með sömu gildin; samsterk, fagdjörf og þjónustuframsýn.

„Vinnan við sameiginleg gildi var í raun fyrsta skrefið sem tekið var í nánari tengslum félaganna. Þau leggja meðal annars áherslu á að starfsfólk brjóti múrana og vinni þvert á einingar og nýti sérþekkingu á ólíkum sviðum til að skapa lausnir fyrir viðskiptavini. Um leið og aukin áhersla var lögð á nýsköpun leggja gildin aukinheldur áherslu á traust, fagmennsku, mikilvægi þjónustu og reyna að fara fram úr væntingum viðskiptavina. Gildin voru ákveðið sameiningartákn fyrir okkur öll og það auðveldaði alla vinnu við mörkunina,“ segir hann.

Fyrirtækin þrjú sem voru sameinuð voru með nokkuð ólíka fyrirtækjamenningu þótt þau væru öll skilgreind á sviði upplýsingatækni. „TM Software sérhæfði sig í stafrænum lausnum og eigin hugbúnaðargerð, Applicon lagði áherslu á viðskiptalausnir ýmiss konar og svo Nýherji sem var í raun á mörgum vígstöðvum þó að upplýsingatæknihlutinn væri sífellt stærri þáttur á þeim bænum. Nýherji var um leið langþekktasta vörumerkið og vitund um það var hátt í 100 prósent meðal fólks. Það hafði um leið mikla tengingu við IBM og vélbúnað, af sögulegum ástæðum þar sem Nýherji var áður IBM á Íslandi.

Vélbúnaður er áfram snar þáttur í starfseminni en vægi hugbúnaðar og þjónustu hefur orðið sífellt meiri þáttur hjá félögunum. Af þeim sökum var mikilvægt að nýtt félag skilgreindi sig sem alhliða upplýsingatæknifélag sem legði jafna áherslu á hugbúnað, vélbúnað, þjónustu og ráðgjöf. Nafn félagsins þurfti jafnframt að endurspegla lausnaframboð samstæðunnar,“ segir hann.

Verkefnið þurfti að „marinerast“

Gísli segir að ferlið hafi tekið hátt í átta mánuði þar sem leitað var til starfsfólks, viðskiptavina og sérfræðinga á sviði mörkunar. „Við fengum meðal annars Friðrik Larsen, doktor í markaðsfræðum, í lið með okkur sem reyndist okkur mjög vel og vann þétt við hlið okkar fram að því að nafnið var kynnt. Það var að mörgu að huga á þessari vegferð, bæði praktísk mál en eins má ekki gera lítið úr þeim breytingum sem fylgja nýju nafni. Sem dæmi má nefna að Nýherji var við lýði í 25 ár og margt starfsfólk hafði sterkar og jákvæðar tilfinningar til nafnsins. Af þeim sökum þurfti að vanda til verka og vinna verkefnið í góðu samráði við sem flesta hagsmunaaðila, eða láta verkefnið „marinerast“ eins og Friðrik nefndi stundum og var hárrétt hjá honum; við þurftum að gefa okkur góðan tíma.“

Origo merkir upphaf

Orðið Origo er úr latínu og merkir uppruni, upphaf eða uppspretta. „Við mátuðum okkur við fjölda orða og nafna, einkum íslensk. Á endanum varð að Origo fyrir valinu, en þess má geta að fyrirtækið Origo var áður til í kringum TM Software. Vörumerkið á að sameina ástríðu fyrir upplýsingatækni og við viljum tengja það við árangur, hugvit, þekkingu, snjallar og öruggar lausnir, langtímasamband, traust og persónulega þjónustu.

Um leið viljum við að vörumerkið sé mannlegt, áreiðanlegt, kraftmikið, félagslynt, opið, jákvætt og lifandi viðhorf til úrlausnarefna framtíðarinnar. Staðfærslan er svo að Origo er þjónustufyrirtæki í upplýsingatækni, sem hjálpar framsæknum viðskiptavinum að ná samkeppnisforskoti með sérsniðnum UT-lausnum,“ segir hann.