Liv Bergþórsdóttir forstjóri ORF Líftækni:

„Þrátt fyrir gríðarlegar áskoranir vegna Covid heimsfaraldursins þá hefur tekist að snúa rekstri fyrirtækisins úr vörn í sókn. Heildarvelta ORF Líftækni árið 2021 nam 2.179 milljónum og hækkaði um 20 prósent frá árinu áður. Hagnaður ársins nam 23,5 milljónum í samanburði við 146 milljóna króna tap árið 2020.“

Covid faraldurinn hafði töluverð áhrif á starfsemi ORF Líftækni á árinu og meta stjórnendur það svo að áhrifa faraldursins muni einnig gæta á árinu 2022.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að hinn krefjandi covid tími hafi verið vel nýttur í að móta félaginu nýja stefnu til framtíðar.

Eitt fyrirtæki verður tvö: ORF Líftækni og BIOEFFECT

Undanfarið ár hefur verið unnið að nýrri stefnu og framtíðarsýn fyrir ORF Líftækni. Hin nýja stefna byggir á þeirri sýn að ORF Líftækni sé í raun tvær ólíkar rekstrareiningar sem eftir að hafa notið samlegðar í gegnum árin standi nú frammi fyrir betri tækifærum með aðskildum rekstri: BIOEFFECT með sjálfstæðri starfsemi fyrir húðvörur og ORF Líftækni sem sjálfstæð starfsemi fyrir vaxtarþætti. Því hefur verið unnið að uppskiptingu ORF Líftækni í tvö aðskilin fyrirtæki. Við skiptinguna munu eignir félagsins skiptast á milli ORF Líftækni hf. og BIOEFFECT Holding ehf. Miðar skiptingin við 1. janúar 2022 og var hún samþykkt einróma af hluthöfum á aðalfundi félagsins 8. apríl 2022 en yfir 90 prósent hluthafa sóttu fundinn.

Á aðalfundinum var enn fremur samþykkt tillaga stjórnar um útgáfu breytanlegra skuldabréfa fyrir allt að 500 milljónir króna i ORF Líftækni. Þá er frekari fjármögnun í undirbúningi fyrir ORF Líftækni sem áætlað er að geti numið allt að 25 milljónum Evra eða um 3,5 milljörðum króna og ætlunin er að sækja þá fjármögnun til nýrra erlendra og sérhæfðra fagfjárfesta.

Liv Bergþórsdóttir sem hefur verið forstjóri félagsins í 2 ár mun áfram starfa sem forstjóri beggja félaganna en síðan verða forstjóri BIOEFFECT í framhaldi af ráðningu stjórnar á nýjum forstjóra til að leiða ORF Líftækni.

2021 var stórt verðlaunaár fyrir BIOEFFECT

BIOEFFECT eru alíslenskar húðvörur sem byggja á íslensku hugviti, þróun og framleiðslu og hefur vörulínan hlotið fjölda alþjóðlegra viðurkenninga. Á árinu 2021 hlaut BIOEFFECT tvenn Pure Beauty Global awards. EGF Power Cream hlaut hin eftirsóttu verðlaun Woman and Home Beauty Awards sem besta nýja rakakremið og EGF Body Serum hlaut verðlaun Oprah Winfrey Beauty Awards sem besta líkamsmeðferðin.

Starfsfólk BIOEFFECT tók enn fremur með stolti á móti viðurkenningu Marie Claire í flokki sjálfbærni en verðlaunin voru sérstaklega sett á laggirnar til að styðja við og vekja athygli á fyrirtækjum sem hafa göfugan grænan tilgang að leiðarljósi. Viðurkenningin er sérlega mikilvæg vegna þeirrar áherslu sem BIOEFFECT hefur lagt á þennan málaflokk í starfsemi sinni.

ORF Líftækni sækir á markað stofnfrumuræktaðs kjöts

ORF Líftækni starfar nú eftir skýrri framtíðarsýn um að vera virkur þátttakandi í nauðsynlegum breytingum í matvælaframleiðslu heimsins með ræktun og framleiðslu dýravaxtarþátta fyrir stofnfrumuræktað kjöt. ORF Líftækni hefur framleitt vaxtaþætti í um 15 ár og vinnur nú að því að þróa og framleiða nýja vörulínu dýravaxtaþátta fyrir stofnfrumuræktað kjöt en gríðarleg sóknartækifæri eru á þeim markaði ef spár um vöxt markaðarins ná fram að ganga. Fram undan er frekari fjármögnun á því verkefni til að styðja við uppskölun framleiðslunnar og sókn inn á þennan nýjan markað.

Sjálfkjörið var í stjórn Orf Líftækni hf. en hana skipa; Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, Guðbjarni Eggertsson, Sigríður Elín Sigfúsdóttir, Knútur Dúi Kristján Zimsen og Sigtryggur Hilmarsson sem er jafnframt stjórnarformaður. Sama stjórn situr í báðum félögum, ORF Líftækni og BIOEFFECT Holding.

Stjórn lagði til að ekki yrði greiddur út arður á árinu 2022 vegna ársins 2021.