Controlant er 15 ára um þessar mundir. Fyrirtækið hafði vaxið jafnt og þétt árin fyrir heimsfaraldur en ekkert í líkingu við það sem fylgdi í kjölfarið.

Grunnurinn var lagður með hugmynd sem kviknaði hjá tveimur háskólanemum og kennara þeirra. Hún gekk út á mæla þrýsting í dekkjum. Síðar umbreyttist tæknilausnin í vöru sem tryggir örugga afhendingu lyfja.

Controlant lék þannig algjört lykilhlutverk í dreifingu Covid-19 bóluefna um allan heim í samstarfi við Pfizer lyfjaframleiðandann.

Erlingur Brynjúlfsson, framkvæmdastjóri vöruþróunar og einn af stofnendum Controlant, segir þetta ferðalag fyrirtækisins í raun eins og eitt stórt ævintýri.

„Í upphafi vorum við bara að leika okkur með þráðlausa tækni og þróa lausnir. Það tengdist lyfjageiranum ekki neitt En það var í kringum 2008 sem Bessi Gíslason, lyfjafræðingur, kom að máli við okkur og sá not fyrir lausnina okkar í tengslum við vöktun lyfja á heilsugæslustöðvum úti á landi. Hann bað okkur um að þróa það áfram og þá má eiginlega segja að boltinn hafi smám saman byrjað að rúlla.“

Áður en við vissum af vorum við komin með samninga við tvö af fimm stærstu lyfjafyrirtækjum heims.

Svo kom svínanflensan og þar sem Controlant var komið með vísi að lausn til að vakta lyf þá leitaði sóttvarnalæknir til fyrirtækisins. Úr varð að Controlant samdi við sóttvarnalækni um vöktun bóluefnakæla.

„Það er svo merkilegt að þetta skref, þessi ákvörðun, að smíða kerfi sem vaktaði bólefni gegn svínaflensu fyrir 12 árum, það lagði í raun grunninn að því sem við erum í dag. Löngu áður en nokkur maður var farinn að tala um Covid-19. Við erum enn að keyra allt okkar módel á sömu grunngildum og við lærðum í tengslum við þá þróunarvinnu,"segir Erlingur.

Það var þessi grunnhugmynd, að ná tökum á viðkvæmu ástandi við dreifingu bóluefnis, sem kom Controlant í ákveðna kjörstöðu. „Það áttuðu sig allir á því mjög snemma í ferlinu að það var markaður fyrir þessa lausn.

Erlingur segir í raun alveg ótrúlegt að fyrirtækið hafi þróast í þessa átt. „Það var enginn leið að sjá þetta ferðalag fyrir. Við vorum bara að þróa tækni sem við höfðum trú á.“

Þegar Covid faraldurinn skall á sogaðist Controlant inn í atburðarás sem Erlingur líkir við stormsveip.

„Áður en við vissum af vorum við komin með samninga við tvö af fimm stærstu lyfjafyrirtækjum heims. Það var árið 2019. Við höfðum verið í samstarfi við Pfizer áður og það var mjög mikilvægt að vera búin að byggja upp vísi að viðskiptasambandi.“

Faraldurinn vatt upp á sig og þáttur Controlant í dreifingu bóluefnis fór á flug.

Þessi vöxtur var alveg ævintýralegur. Ef við tökum nokkur dæmi þá vorum við um mitt ár 2020 að framleiða um það bil 2 þúsund tæki á mánuði en í lok síðasta árs vorum við að framleiða um 180 þúsund tæki í hverjum mánuði. Við þurftum að hundraðfalda framleiðsluna. Það sem við framleiddum á einum mánuði fyrir tveimur árum getum við í dag framleitt á hálfum degi.

Hér svitnuðu allir þegar við fengum fyrstu pöntunina upp á 20 þúsund tæki. Þá hugsaði maður bara, ja hérna, hvernig förum við að þessu? En svo bretti fólk upp ermar og setti undir sig hausinn. Þannig gerðist þetta. Vegna þess að starfsfólk Controlant leggur enga merkingu í orðið ómögulegt.

Það myndi enginn grípa andann á lofti yfir slíkri pöntun í dag. Það segir heilmikið um það hvert við erum komin.

Hjá Controlant myndaðist ákveðin stemming í kringum samningana um dreifingu Covid-19 bóluefna. „Við vorum hlut af aðgerð sem skipti heimsbyggðina máli. Og við fundum það alveg frá okkur kúnnum, lyfjaframleiðendunum, að við lékum lykilhlutverk. Að koma nauðsynlegu bóluefni í öruggar hendur. Það gaf okkur aukinn kraft.

Það voru allir að fylgjast með þessum faraldri og bóluefninu sem við vorum þáttakendur í að færa frá rannsóknarstofum og til fólksins. Fram að því vissi enginn hvað Controlant var.

Starfsfólki Controlant fjölgaði úr 50 í 370 á þessum tveimur árum. „Þar skipti fyrirtækjamenningin öllu máli. Að hlúa að ferlum og passa upp á mannauðinn í gegnum þennan vöxt. Við hefðum aldrei getað þetta án starfsfólksins og við höfum lagt okkur fram við að passa upp á þann hluta starfseminnar.

En það er ekki sjálfgefið að ráða 300 manns á skömmum tíma á Íslandi. „Það hjálpaði til að fólk vissi hver við vorum. Það voru allir að fylgjast með þessum faraldri og bóluefninu sem við vorum þáttakendur í að færa frá rannsóknarstofum og til fólksins. Fram að því vissi enginn hvað Controlant var.

Erlingur segir að reglulega hafi sú umræða komið upp hvort íslenskur vinnumarkaður væri nægilega stór fyrir svo öran vöxt í sérhæfðum geira. „Við höfum hingað til keyrt vöxtinn á Íslandi og það hefur gengið vel. Það er ekki fyrr en núna sem við erum að taka okkar fyrstu alvöru skref út fyrir landsteinana. Við erum að byggja upp þann hluta fyrirtækisins í Póllandi. Við höfum alltaf verið við með hluta þjónustunnar í Bandaríkjunum og víða um Evrópu en þetta sem við erum að gera í Póllandi snertir áframhaldandi vöxt fyrirtækisins og viðleitni til að komast í tæri við stærra mengi vinnuafls og þoka okkur nær helstu mörkuðum og viðskiptavinum.“

„Það er aðallega vegna þess að við sjáum fyrir okkur að fyrirtækið muni halda áfram að vaxa. Ég hef aldrei verið jafn spenntur fyrir framtíð fyrirtækisins og akkúrat núna. Við erum hluti af þessu mikilvæga loftslagsverkefni heimsins. Að minnka sóun og auka öryggi. Það er göfugt viðfangsefni og Controlant ætlar að vera þátttakandi í því. Það er okkar drifkraftur," segir Erlingur að lokum.