Íslenskir netheimar loguðu þegar jólabjór ORA dúkkaði upp á dögunum. Sitt sýndist hverjum um þessa furðulegu blöndu en nægur áhugi virðist hafa verið á að smakka bjórinn sem er nú uppseldur í áfengisverslunum landsins.

Mikil umræða skapaðist í kringum dósirnar sem minntu á fornfrægar niðursuðudósir Ora, með tilheyrandi grænum baunum og rauðkáli. Valgeir Valgeirsson, bruggstjóri hjá Brugghús RVK, segir viðtökurnar hafa farið fram úr björtustu vonum.

„Ég er með síðustu tvær af síðustu dósunum hérna svo ég eigi nú eitthvað fyrir sjálfan mig,“ segir Valgeir. „Við vissum auðvitað að þetta myndi vekja athygli, Ora er auðvitað íkónískt vörumerki og þetta eru ansi sérstök hráefni í bjór, en enginn gat séð þetta fyrir. Þessar viðtökur eru búnar að vera sturlaðar.“

Valgeir bruggmeistari passar að eiga smá eftir fyrir sjálfan sig.
Mynd/Aðsend

Hvað viðtökur varðar segir Valgeir að bjórinn hafi jafnvel komið efasemdafólki á óvart.

„Fólk hefur verið duglegt að segja mér að það hafi ekki átt von á neinu eða þótt þetta vond hugmynd en hafi svo þótt þetta gott eftir að það fékk að smakka,“ segir Valgeir og bætir hlæjandi við: „Ég veit svo sem ekki af hverju það finnur sig knúið til að orða þetta svona. En við hefðum aldrei látið neitt frá okkur sem okkur þætti ekki gott.“

Aðspurður segir Valgeir að verið sé að undirbúa meira upplag að bjórnum sem sé væntanlegur áður en Stekkjastaur komi til byggða.

„Það er allt á fullu hjá Ora að koma með meiri baunir og rauðkál svo við getum svarað þessari eftirspurn,“ segir hann. „Við eigum von á öðrum skammti núna upp úr næstu mánaðarmótum.“