Orkuveita Reykjavíkur tók tilboðum í lokuðu útboði á grænum skuldabréfum fyrir 2,2 milljarða króna á ávöxtunarkröfunni 4,35 prósent. Heildartilboð í flokkinn voru samtals 5.049 milljónir króna að nafnvirði, þar sem ávöxtunarkrafa var á bilinu 3,99 til 4,65 prósent.

Útboðinu lauk á fimmtudaginn og voru gefin út skuldabréf í nýjum flokki, OR180242 GB. Flokkurinn er óverðtryggður með föstum vöxtum og jöfnum afborgunum tvisvar á ári fram að lokagjalddaga þann 18. febrúar 2042.

Fossar markaðir höfðu umsjón með útgáfu og sölu skuldabréfanna sem og töku þeirra til viðskipta á markaði Nasdaq á Íslandi með sjálfbær skuldabréf. Þetta kemur fram á heimasíðu verðbréfafyrirtækisins.

Fram hefur komið í fjölmiðlum að Orkuveitan gaf fyrst út græn skuldabréf í febrúar árið 2019. Við það tilefni kom fram að fyrirtækið hafi unnið skipulega að umhverfismálum um langa hríð. Fyrirtækið hafi gefið gaf út umhverfisskýrslu meðal fyrstu íslenskra fyrirtækja árið 2000 og starfsemin hafi frá árinu 2005 notið óháðrar vottunar samkvæmt ISO 14001 umhverfisstaðlinum. Orkuveitan hafi sett sér það markmið að smækka kolefnisspor fyrirtækisins um 60 prósent fyrir árið 2030.

Græn skuldabréf eru skuldabréf sem gefin eru út til að fjármagna verkefni sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og vinna þannig gegn hlýnun jarðar og þeirri vá sem henni fylgir. Einn helsti hvatinn að útgáfu þeirra er vinna fjölda opinberra- og einkaaðila gegn loftslagsbreytingum og vitundarvakning meðal fjárfesta hefur hert á þessari þróun.