Matsfyrirtækið Fitch Ratings hækkaði í gær lánshæfismat Orkuveitu Reykjavíkur (OR) um eitt þrep úr BB+ í BBB- sem þýðir að OR er nú komið í svokallaðan fjárfestingarflokk hjá Fitch. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá OR.

Horfur OR eru enn fremur metnar stöðugar, en væntingar Fitch til reksturs OR á næstu fjórum árum byggjast á afkomu ársins 2020 sem er sagður hafa verið góður í ljósi ytri aðstæðna.

„Þetta er afar ánægjulegt og langþráð en þetta er eitt af því sem stefnt var að með Planinu svokallaða. Þann 1. apríl síðastliðinn voru einmitt nákvæmlega 10 ár síðan Planið var sett af stað. Það er einnig ánægjulegt að við skulum ná þessum áfanga í miðjum Covid-faraldri á sama tíma og þau fyrirtæki sem Orkuveitan er borin saman við hafa staðið í stað eða lækkað í lánshæfismati. Þá er það einnig athyglisvert að lánshæfiseinkunn okkar sé að hækka á sama tíma og íslenska hagkerfið hefur orðið fyrir þeim miklu skakkaföllum sem raun ber vitni. Við lítum á þetta sem ákveðna staðfestingu á fjárhagslegu heilbrigði fyrirtækisins og mun þetta hjálpa okkur á lánamörkuðum, sérstaklega erlendis,“ segir Ingvar Stefánsson framkvæmdastjóri fjármála hjá OR.