Tón­listar­konan Ragga Holm, eða Ragn­hildur Holm, opnar í dag nýjan skemmti­stað og bar að Hafnar­stræti 4 í mið­bæ Reykja­víkur. Staðurinn heitir Curious.

„Það verður skemmti­staður, eða klúbbur, á efri hæðinni, og svo vegan kaffi­hús og bar á neðri hæðinni,“ segir Ragn­hildur í sam­tali við Frétta­blaðið.

Hún segir að staðurinn flokkist sem queer, eða hin­segin staður, en sé vin­veittur gagn­kyn­hneigðum. Spurð hvort það hafi vantað fleiri slíka staði í Reykja­vík segir Ragn­hildur að það hafi verið mikil vöntun á meiri flóru. Fyrir er aðeins einn queer, eða hinsegin staður, Kiki. Þá fara oft fram hinsegin viðburðir á bæði Loft Hostel og Gauknum.

„Þetta er við­bót við flóruna. Það vantaði alveg svaka­lega. Það hefur verið mikil eftir­spurn og það eru allir rosa­lega á­nægðir með að þetta sé að bætast við,“ segir Ragn­hildur.

Staðurinn verður til húsa að Hafnarstræti 4 í 101 Reykjavík.
Fréttablaðið/Valli

Fjölbreytt dagskrá

Spurð út í tón­listar­stefnu klúbbsins segir hún að það megi búast við á­kveðnum kjarna um helgar, en að svo verði fjöl­breytt dag­skrá aðra daga, svo sem bingó, drag og karó­kí.

„Það verða DJ-ar á föstu­dögum og laugar­dögum og opið til hálf fimm. Það verður popp og tón­list sem allir þekkja, en svo önnur kvöld verður sér­valin dag­skrá,“ segir Ragn­hildur.

Opna veitingastað eftir tvo mánuði

Hún segir að enn eigi svo eftir að bætast við, því vonandi eftir tvo mánuði, mun á staðnum opna veitinga­staður. Hún segist ekki geta sagt hvaða veitinga­staður það er, en segir að hann sé nú þegar að finna annars staðar.

„Þó að við séum að opna núna eru því enn spennandi tímar fram undan,“ segir Ragn­hildur.

Staðurinn verður form­lega opnaður í kvöld og hefst klukkan 19. Svala Björg­vins mun flytja nokkur lög og svo mun DJ Sura taka við af henni og spila tón­list til lokunar.

„Það verða fríar veitingar og fljótandi með. Við opnun klukkan 19 og vonumst til að sjá sem flesta,“ segir Ragn­hildur að lokum.