Stykkishólmsbær hefur úthlutað fyrirtækinu Asco Harvester lóð við hafnarsvæðið þar sem framkvæmdir við 800 fermetra húsnæði munu hefjast á næstu vikum. Sigurður Pétursson, stjórnarformaður Asco Harvester, segir fyrirtækið stefna að 200 tonna framleiðslu á afurðum úr klóþangi innan árs.

Gert er ráð fyrir allt að 20 starfsmönnum við vinnsluna en þar með verður Þörungavinnsla Asco Harvester einn af fjölmennari vinnustöðum í Stykkishólmi.

Að sögn Sigurðar er með þessu verið að ganga í þá matarkistu sem Breiðafjörður er. „Við höfum lesið um þessa auðlindanýtingu í sögubókum en einhverra hluta vegna hefur þessi planta ekki verið nýtt í sama mæli og áður fyrr. Það eru ótrúlega miklir möguleikar í þessum geira hér á landi. Þess vegna erum að við að ráðast í þessa uppbyggingu og fjárfestingu.“

Sigurður líkir nýtingunni við að slá gras. „Slátturinn hjálpar plöntunni að vaxa og dafna. Hún þarf jafn mikið á okkur að halda og við á henni.“

Aco Harvester stóð fyrir fjölmennum íbúafundi í Stykkishólmi í síðustu viku. Sigurður, sem hefur langa reynslu af svipuðum verkefnum víða um land, segir viðbrögð heimamanna mjög jákvæð. „Það skiptir fólk auðvitað máli að við erum ekki að tala um einhver framtíðaráform, heldur erum við þegar komin af stað.“

Sérstakur þurrkari vinnslunnar er væntanlegur til landsins frá Austurríki í næstu viku. Þurrkarinn er útbúinn sérstakri stýringu og er hannaður til að skila góðri orkunýtingu. Hráefnið verður þurrkað við lágan hita til að viðhalda bestu mögulegum gæðum. Framkvæmdir við húsnæði fyrirtækisins hefjast svo strax á sumarmánuðum.

Vinnsla af þessu tagi er óplægður akur að mati Jakobs Björgvins, bæjarstjóra.

Jakob Björgvin Jakobsson, bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar, segir vinnslu sem þessa renna styrkari stoðum undir fjölbreytt atvinnulíf á svæðinu. „Það sem er mest um vert er að þetta er í fullkomnu samræmi við þá stefnu sem við höfum markað um eflingu atvinnulífs í Stykkishólmi.“

Jakob segist þess fullviss að verkefni Asco Harvester sé einungis byrjunin. Fleiri fyrirtæki hafi viðrað áhuga á að fara út í svipaða starfsemi í tengslum við auðlindanýtingu á svæðinu. Hann segir Breiðafjörð hafa upp á svo margt að bjóða. „Þörungavinnsla er aðeins einn hlekkur í þeirri keðju. Það er heilmikið í pípunum. Það má í raun líkja þessu við óplægðan akur – í bókstaflegri merkingu,“ segir Jakob.