Hluthafar Opinna kerfa undirbúa sölu á fyrirtækinu. Fjárfestingasjóðurinn MF1 á ríflega 79 prósenta hlut, Eignarhaldsfélag Frosta Bergssonar, sem er einn af stofnendum Opinna kerfa og stjórnarmaður, á um 16 prósent og starfsfólk fer með um fimm prósenta hlut. Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka annast söluferlið.

Mikill viðsnúningur varð á rekstri fyrirtækisins í fyrra eftir breytingar sem ráðist var í fyrir tveimur árum, meðal annars á innra skipulagi félagsins og áherslum í vöruúrvali. Hagnaður fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir jókst úr fimm milljónum 2019 í 215 milljónir árið 2020. Þá lækkaði rekstrarkostnaður félagsins um 100 milljónir á milli ára. Tekjurnar jukust um fimm prósent á milli ára og námu 3,9 milljörðum.

Aðspurður hvers vegna MF1 kjósi að selja í Opnum kerfum eftir að hafa átt hlutinn í tæp tvö ár segir Gísli Valur Guðjónsson, framkvæmdastjóri MF1, að meginhlutverk sjóðsins sé að veita lán en ekki koma að félögum sem ráðandi hluthafi. Sjóðurinn hafi gripið til þess ráðs að fylgja lánveitingu eftir með því að ganga inn í hluthafahópinn, endurskipuleggja fjárhaginn og snúa rekstrinum við. Það hafi gengið eftir og því sé nú góður tími til að kanna sölu á eignarhlutnum. „Það er rökrétt að fá nýja eigendur að félaginu,“ segir hann í samtali við Markaðinn.

MF1 er í rekstri Ísfoldar Capital Partners sem rekur tvo lánasjóði, MF1 og MF 2.