Opec ríkin og bandamenn á borð við Rússa eru að undirbúa að draga úr olíuframleiðslu eftir miklar lækkanir á olíuverði sem rekja má til minni eftirspurnar eftir að kórónavírusinn breiddist um Kína.

Frá því í byrjun janúar hefur olíuverð lækkað um meira en 20 prósent sem er skilgreiningin á bjarnarmarkaði, segir í frétt Financial Times.

Olíuframleiðendur óttast að olíuverð haldi áfram að lækka ef ekki verði gripið í taumana. Konungur Sádí-Arabíu, Salman bin Abdul Aziz al-Saud, hringdi í Valdimir Putin, forseta Rússlands, og sögðust þeir reiðbúnir að stilla saman strengi til að tryggja „stöðugleika á alþjóðlegum olíumarkaði.“

Valdimir Putin, forseti Rússlands fékk símtal frá Konungi Sádí-Arabíu, Salman bin Abdulaziz al-Saud.

Óttast er að kórónavírusinn muni loka stórum borgum og flugleiðum til Kína sem muni draga úr eftirspurn eftir olíu. Kína notar næstmest af olíu í heiminum á eftir Bandaríkjunum.

Sumir fulltrúar aðildarríkja Opec eru varfærari og telja að frekari tími þurfi að líða til að hægt sé að skilja betur áhrif vírussins á eftirspurn eftir olíu.