Markaðurinn stóð fyrir vali á bestu viðskiptum ársins 2019. Viðskipti FISK-Seafood með hlutabréf Brims urðu fyrir valinu, kaup TM á lykli voru í öðru sæti og skráning Marels í kauphöllina í Amsterdam var í því þriðja. Hérna er listi yfir önnur viðskipti sem voru nefnd við val á bestu viðskiptum ársins og umsagnir álitsgjafa Markaðarins.

Guðmundur Kristjánsson, aðaleigandi Brims, var stórtækur í fjárfestingum á árinu sem er að líða, rétt eins og því fyrra, og töldu margir álitsgjafar Markaðarins að áframhaldandi stækkun Brims, meðal annars með kaupum á sölufélögum Útgerðarfélags Reykjavíkur í Asíu, væru viðskipti ársins.

„Stækkun Brims með kaupum á Ögurvík og í kjölfarið sölustarfsemi ÚR í Asíu. Brim skilaði metafkomu á þriðja ársfjórðungi og gengið hefur hækkað um 20 prósent frá áramótum,“ sagði einn álitsgjafi.

Þá voru viðskipti með bréf í Alvotech, sem var stofnað af Róbert Wessman, sömuleiðis nefnd sem viðskipti ársins en tilkynnt var um það í nóvember að alþjóðlega fjárfestingarfélagið Yas Holding hefði gert samkomulag við Alvotech um kaup á nýju hlutafé og samstarfssamning um þróun, framleiðslu og sölu líftæknilyfja fyrir um 45 milljónir Bandaríkjadala.

Kaup Stoða á hlutum í Símanum, sem hófust í apríl, voru talin eiga skilið að vera viðskipti ársins en fjárfestingarfélagið hefur á skömmum tíma orðið að stærsta hluthafa félagsins með 14 prósenta hlut. „Félagið var áður hálf-munaðarlaust. Markaðurinn treystir því að þeir muni skapa hluthöfum aukin verðmæti með því að taka Mílu, innviði félagsins, setja í sér félag og selja,“ sagði einn álitsgjafi.

„Þegar íslenskir tölvunarfræði- og stærðfræðinördar selja Algrím, algjörlega óþekkt fjártæknifélag í rekstri sem fáir skilja, fyrir stórfé til Ripple, alþjóðlegs leiðtoga í þessum bransa.“

Sala á íslenska fyrirtækinu Algrim Consulting, sem hefur byggt upp tækni á sviði gjaldeyrisviðskipta og viðskipta með rafmyntir, til bandaríska tæknifyrirtækisins Ripple fékk einnig atkvæði sem viðskipti ársins. „Þegar íslenskir tölvunarfræði- og stærðfræðinördar selja Algrím, algjörlega óþekkt fjártæknifélag í rekstri sem fáir skilja, fyrir stórfé til Ripple, alþjóðlegs leiðtoga í þessum bransa,“ sagði í rökstuðningi eins dómnefndarmanns.

Þá voru lífskjarasamningarnir á almennum vinnumarkaði nefndir sem viðskipti ársins. „Hvað svo sem má segja um æsingafólkið sem nú skipar verkalýðsforustuna þá náðu þau góðum og skynsamlegum samningum fyrir sína félagsmenn á erfiðum tíma,“ sagði einn álitsgjafi.

Miklar breytingar hafa verið gerðar á stjórnendateymi Arion banka á árinu og voru þeir félagarnir Benedikt Gíslason og Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason ráðnir sem bankastjóri og aðstoðarbankastjóri. Einn nefndarmaður vildi meina að sú ráðning ætti skilið að vera nefnd sem viðskipti ársins. „Í fyrsta skipti í áratug er hægt að ganga að bílastæðum lausum við Borgartún og með þessu áframhaldi er ljóst að allt tal um „gráa daga“ og borgarlínu mun daga uppi. Þessir menn eru virkilega að draga úr losun CO2.“

Önnur viðskipti sem voru nefnd voru meðal annars salan á Fréttablaðinu – „selt á ögurstundu fyrir fínan pening“ – eins sala Innergex á 67 prósenta hlut í HS Orku til Ancala og íslenskra lífeyrissjóða, sem var sögð „frábær sala á félaginu á mjög góðu verði“.