Ólafur Þór Jóelsson, framkvæmdarstjóri hjá Senu sem er umboðsaðili PlayStation á Íslandi, segir að þó að það sé von á fjölmörgum tölvum til landsins fyrir jólin verði það þó líklegast ekki nóg til að anna eftirspurninni hér á landi.

„Það er ekki endanlega komið hversu margar tölvur við fáum. Þetta lítur ágætlega út en ennþá ekki nóg til að anna eftirspurninni hér á landi sem á eflaust eftir að lifa fram á næsta ár,“ segir Ólafur, aðspurður hvernig staðan væri þegar tveir mánuðir eru til jóla og einhverjir farnir að huga að jólagjöfum.

Á dögunum bárust fréttir af því að Sony væri farið að huga að því að framleiða íhlutina sem vantar upp á eigin spýtur til að flýta fyrir framleiðslu.

Á næstu vikum verður eitt ár liðið frá því að fimmta leikjatölva Sony, PlayStation 5 var gefin út en frá fyrsta degi hefur framboð ekki náð að sinna eftirspurninni hér á landi.

Þannig fékk einstaklingur sem fékk gjafabréf fyrir tölvu í jólapakkann á síðasta ári tölvuna afhenda á dögunum og þegar það fréttist af tölvum í verslunum er það yfirleitt uppselt á nokkrum mínútum.

Ólafur kannast við þessa sálma.

„Það er margt sem er að hafa áhrif á þessar tafir sem eru á heimsvísu, meðal annars vöruflutningur og íhlutastaða. Apple er með nýjan síma og er að draga úr sinni framleiðslu og þetta er að koma víða niður á sama tíma og eftirspurning er gríðarleg,“ segir Ólafur og heldur áfram:

„Við finnum mjög mikið fyrir þessum áhuga og þessari eftirspurn og vildum gjarnan geta gert betur. Sem betur fer er Sony að hugsa vel til okkar, eins og annarra svæða, og við erum að fá þær tölvur sem við eigum að fá.“