Héraðsdómur Reykjavíkur felldi í dag úr gildi úrskurð kærunefndar útboðsmála um að útboð Reykjavíkurborgar væri ógilt á svokölluðum Hverfahleðslum. Í kjölfarið mun Orka náttúrunnar síðar í vikunni opna á ný 156 hverfahleðslur sem staðsettar eru víða í Reykjavíkurborgar.
Kærunefnd útboðsmála komst að því í júní að útboð Reykjavíkurborgar á svokölluðum Hverfahleðslum væri ógilt vegna þess að ekki var boðið út á evrópska efnahagssvæðinu. Í kjölfarið var Orku náttúrunnar, sem vann útboðið á sínum tíma, gert að slökkva á hleðslunum.

Gleðiefni fyrir rafbílaeigendur
Í tilkynningu frá ON kemur fram að eftir að þau rýndu í úrskurðinn töldu þau ljóst að forsendur nefndarinnar væru rangar og ákváðu að fara með málið fyrir héraðsdóm. Flýtimeðferð fékkst á dómsmálinu og í dag féllst Héraðsdómur Reykjavíkur á sjónarmið ON.
„Þetta er fyrst og fremst mikið gleðiefni fyrir þá fjölmörgu rafbílaeigendur sem treysta á þessa þjónustu. Það var alveg ljóst í okkar huga að forsendurnar fyrir niðurstöðu kærunefndar væru rangar og því ákváðum við að láta reyna á þetta fyrir dómi,“ segir Berglind Rán Ólafsdóttir framkvæmdastýra ON, í tilkynningu.
Hverfahleðslurnar verða tengdar aftur í vikunni og í tilefni dómsins verður, frá og með föstudeginum, frítt að hlaða í þeim út mánuðinn.
Frítt að hlaða út mánuðinn
Berglind Rán segir að ON hafi alltaf verið í fararbroddi þegar kemur að stuðningi við orkuskipti í samgöngum og að þau ætli að að halda því áfram.
„Hverfahleðslurnar eru ásamt Hraðhleðslum okkar og Heimahleðslum gríðarlega mikilvægur hlekkur þegar kemur að orkuskiptunum sem eru á fleygiferð. Við höfum alltaf lagt áherslu á að þjónusta alla okkar viðskiptavini með sem bestum hætti og Hverfahleðslurnar gegna lykilhlutverki hjá þeim sem ekki geta hlaðið heima hjá sér. Við munum alltaf setja okkar fólk í fyrsta sæti og eru viðbrögð ON í þessu máli svo sannarlega í takt við það.“
Fólk er minnt á það í tilkynningu að taka með sér snúru, ON-lykilinn og að það er í lagi að skilja bílinn eftir í Hverfahleðslum yfir nótt. Þá eru eigendur brunabíla, bifreiða sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti, vinsamlegast beðnir um að leggja bílum sínum annars staðar en í hleðslustæði ON.