Héraðsdómur Reykjavíkur felldi í dag úr gildi úrskurð kæru­nefndar út­boðs­mála um að út­boð Reykja­víkur­borgar væri ó­gilt á svo­kölluðum Hverfa­hleðslum. Í kjölfarið mun Orka náttúrunnar síðar í vikunni opna á ný 156 hverfa­hleðslur sem stað­settar eru víða í Reykja­víkur­borgar.

Kærunefnd útboðsmála komst að því í júní að út­boð Reykja­víkur­borgar á svo­kölluðum Hverfa­hleðslum væri ó­gilt vegna þess að ekki var boðið út á evrópska efna­hags­svæðinu. Í kjöl­farið var Orku náttúrunnar, sem vann út­boðið á sínum tíma, gert að slökkva á hleðslunum.

Frítt verður að hlaða út mánuðinn.
Mynd/Atli Mar Hafsteinsson

Gleðiefni fyrir rafbílaeigendur

Í til­kynningu frá ON kemur fram að eftir að þau rýndu í úr­skurðinn töldu þau ljóst að for­sendur nefndarinnar væru rangar og á­kváðu að fara með málið fyrir héraðs­dóm. Flýti­með­ferð fékkst á dóms­málinu og í dag féllst Héraðs­dómur Reykja­víkur á sjónar­mið ON.

„Þetta er fyrst og fremst mikið gleði­efni fyrir þá fjöl­mörgu raf­bíla­eig­endur sem treysta á þessa þjónustu. Það var alveg ljóst í okkar huga að for­sendurnar fyrir niður­stöðu kæru­nefndar væru rangar og því á­kváðum við að láta reyna á þetta fyrir dómi,“ segir Berg­lind Rán Ólafs­dóttir fram­kvæmda­stýra ON, í til­kynningu.

Hverfa­hleðslurnar verða tengdar aftur í vikunni og í til­efni dómsins verður, frá og með föstu­deginum, frítt að hlaða í þeim út mánuðinn.

Frítt að hlaða út mánuðinn

Berg­lind Rán segir að ON hafi alltaf verið í farar­broddi þegar kemur að stuðningi við orku­skipti í sam­göngum og að þau ætli að að halda því á­fram.

„Hverfa­hleðslurnar eru á­samt Hrað­hleðslum okkar og Heima­hleðslum gríðar­lega mikil­vægur hlekkur þegar kemur að orku­skiptunum sem eru á fleygi­ferð. Við höfum alltaf lagt á­herslu á að þjónusta alla okkar við­skipta­vini með sem bestum hætti og Hverfa­hleðslurnar gegna lykil­hlut­verki hjá þeim sem ekki geta hlaðið heima hjá sér. Við munum alltaf setja okkar fólk í fyrsta sæti og eru við­brögð ON í þessu máli svo sannar­lega í takt við það.“

Fólk er minnt á það í til­kynningu að taka með sér snúru, ON-lykilinn og að það er í lagi að skilja bílinn eftir í Hverfa­hleðslum yfir nótt. Þá eru eig­endur bruna­bíla, bif­reiða sem ganga fyrir jarð­efna­elds­neyti, vin­sam­legast beðnir um að leggja bílum sínum annars staðar en í hleðslu­stæði ON.