Orka náttúrunnar (ON) fengið flýtimeðferð í héraðsdómi til að fá fellda úr gildi niðurstöðu kærunefndar útboðsmála um hleðslustöðvar þeirra í Reykjavík. ON skaut niður­stöðu kæru­nefndar út­boðs­mála til dóm­stóla til að freista þess að fá niður­stöðunni fellda úr gildi.

Í til­kynningu frá fé­laginu segir að lög­maður þeirra hafi sent héraðs­dómi stefnu vegna málsins síðast­liðinn mánu­dag og óskað flýti­með­ferðar sem dóm­stóllinn féllst á. Málið verður þing­fest á mánu­daginn í næstu viku. Með þessu freistar fyrir­tækið þess að opna á ný allar 156 götu­hleðslur fyrir­tækisins fyrir raf­bíla sem voru í notkun í Reykja­vík áður en úrskurður nefndarinnar féll.

„Sú staða sem upp kom eftir niður­stöðu kæru­nefndarinnar var í senn flókin og kol­ó­mögu­leg,“ segir Kristján Már Atla­son, for­stöðu­maður fyrir­tækja­markaða ON.

Í til­kynningu ON segir að ekki sé hægt að stefna kæru­nefndinni og því stefnir ON bæði Ísorku og Reykja­víkur­borg sem að kærðu út­boðið.

ON fer hvorki fram á bætur né máls­kostnað í dóms­málinu heldur að niður­staða kæru­nefndar verði felld úr gildi og raf­bíla­eig­endur geti þar sem hlaðið bíla sína á ný í Reykja­vík.

Farið fram á frestun réttar­á­hrifa

Þá kemur fram í til­kynningunni að On hafi einnig sent erindi til kæru­nefndarinnar þar sem þess er farið á leit að réttar­á­hrifum niður­stöðu hennar verði frestað í því skyni að ON geti veitt þjónustuna þangað til niður­staða dóm­stólsins liggur fyrir.

Nefndin á­leit að út­boð Reykja­víkur­borgar á upp­setningu og rekstri hleðslu­stöðva við bíla­stæði í eigu borgarinnar, sem einkum þjóna þeim sem ekki hafa að­stöðu til að hlaða heima fyrir eða við vinnu­stað, hefði átt að fara fram á evrópska efna­hags­svæðinu en ekki bara á Ís­landi.

Allra leiða leitað til að opna stöðvarnar

Eftir að niður­staða kæru­nefndarinnar lá fyrir reyndi ON að halda stöðvunum opnum með því að gefa úr þeim raf­magnið í stað þess að selja það. Það taldi Reykja­víkur­borg ekki heimilt eins og staðan var.

Nú hefur Orka náttúrunnar sent erindi til borgar­lög­manns. Þar er Reykja­víkur­borg innt eftir því hvort flýti­með­ferð dóms­málsins og sú yfir­lýsing for­ráða­manns kærandans í málinu við Frétta­blaðið að það sé „alveg Ísorku að meina­lausu hvort stöðvarnar fái að þjóna raf­bíla­eig­endum á­fram,“ gefi til­efni til að endur­meta stöðuna.

„Það var enginn sigur­vegari en öll töpuðu, ekki síst raf­bíl­eig­endur og lofts­lagið. Við erum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma þessari þjónustu í gagnið á ný, enda sýndi sig að margir raf­bíla­eig­endur, sem ekki eiga kost á að hlaða heima, treystu á þessa lausn þegar þeir keyptu sér raf­magns­bíl. Við hjá Orku náttúrunnar erum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að komast út úr þessari ó­mögu­legu stöðu sem nú er, enda eru orku­skipti í sam­göngum fljót­legasta og mikil­vægasta fram­lag okkar til lofts­lags­mála,“ segir Kristján Már.