Markaðsstofan Digido hefur ráðið til sín Ómar Þór Ómarsson í stöðu framkvæmdastjóra vaxtar. Í tilkynningu kemur fram að Ómar muni meðal annars leiða nýtt B2B teymi (markaðssetning fyrirtækja til annarra fyrirtækja) með það markmið að hjálpa íslenskum fyrirtækjum með alþjóðlega stefnumótun.
Digido er gagnadrifin markaðsstofa sem starfar með mörgum af stærstu fyrirtækjum landsins við ráðgjöf og umsjón um markaðs- og birtingamál. Meðal samstarfsaðila eru Arion banki, Men & Mice, 50 Skills, Pay Analytics og Origo auk fjölda annarra.
Ómar hefur víðtæka reynslu af sölu- og markaðsmálum ásamt viðskipta- og vöruþróun fyrirtækja á alþjóðavísu. Síðastliðin átta ár hefur hann gegnt stöðu markaðsstjóra hjá alþjóðlega fjártæknifyrirtækinu Meniga. Áður starfaði Ómar sem ráðgjafi á fyrirtækjasviði hjá Deloitte í Sviss og viðskiptastjóri hjá Creditinfo. Ómar er með gráðu í fjármálaverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og gráðu í stafrænni markaðssetningu frá Columbia Háskóla.
„Það er mikið af spennandi fyrirtækjum og hugviti að krauma á Íslandi í dag með gríðarleg tækifæri til að vaxa út fyrir landsteinana. Við Íslendingar erum rosalega öflug í að búa til frábærar vörur og ná árangri á Íslandi en mörg fyrirtæki lenda á vegg þegar þau ætla sér að vaxa erlendis. Þar skiptir öllu máli að þekkja markhópinn og hans hegðunarmynstur í smáatriðum og móta þannig úthugsaða strategíu. Enn fremur þarf að nota réttu tólin og styðjast við gögn til að keyra herferðir og taka upplýstar ákvarðanir,“ segir Ómar.
Hann segist einnig virkilega spenntur að ganga til liðs við öflugt teymi sérfræðinga hjá Digido og starfa náið með íslenskum fyrirtækjum til að ná árangri. Ómar segir það lykilatriði að vinna með nýjar aðferðir sem hafa verið að ryðja sér til rúms í B2B markaðssetningu og hafa ef til vill ekki verið nýttar til hlítar hér á landi.
Arnar Gísli Hinriksson, annar stofnenda Digido segir ráðningu Ómars vera yfirlýsingu þess efnis að Digido ætli sér að vera leiðandi afl á sviði B2B markaðsmála fyrir fyrirtæki sem vilja vaxa á erlendum vettvangi.
„Metnaður íslenskra fyrirtækja til vaxtar á erlendum mörkuðum hefur verið talsverður"
„Ómar býr yfir yfirgripsmikilli þekkingu og reynslu úr alþjóðlegu umhverfi B2B markaðsmála og þori ég að fullyrða að á því sviði stendur Ómari enginn framar, á Íslandi og þó víðar væri leitað. Sala og markaðssetning á vörum og þjónustu til annarra fyrirtækja getur verið tímafrekari og flóknari en hefðbundin markaðssetning. Hún byggir á dýpri nálgun og okkur hefur fundist vanta sérhæfða þekkingu í B2B markaðssetningu á Íslandi.
Metnaður íslenskra fyrirtækja til vaxtar á erlendum mörkuðum hefur verið talsverður. Við höfum fundið fyrir aukinni eftirspurn frá fyrirtækjum í leit að samstarfsaðila sem getur hjálpað þeim með ítarlega greiningu á sínum tiltekna markhópi og mótað þannig sértæka ferla, efni og úthugsaðar herferðir byggðar á gögnum. Þar má sem dæmi nefna Account Based Marketing (ABM) og markvissar LinkedIn herferðir,“ segir Arnar.