Arn­ar Már Magnús­son, for­stjóri flug­fé­lags­ins Play segir mjög líklega verði auglýst aftur í störf hjá félaginu.

Hann segir allt kortlagt hjá félaginu fyrir fyrsta flug og búið sé að ráða í einhver störf áhafna.

„Við erum nú þegar með einhverjar áhafnir sem munu starfa fyrir okkur, þetta á bæði við um flugmenn og flugliða. Við réðum í þessar stöður til að allt verði klárt fyrir fyrsta flugið. Við höfum unnið að því alveg frá byrjun."

„Við erum ekki búnir að tryggja okkur áhafnir fyrir allar þær stækkanir sem við ætlum okkur að fara í, enda gefur það auga leið að ekki er hægt að ráðast í það strax."

Play auglýsti eftir starfsfólki í nóvember á síðasta ári og bárust um 4.000 umsóknir.

„Við erum nú þegar búin að taka ógrynni viðtala enda voru þetta margar umsóknir. Það er alveg ljóst að við erum með nóg af hæfileikaríku fólki sem er tilbúið að hoppa inn."

Fyrrum starfsfólk WOW air kemur sér vel

Arnar segir að margar umsóknir hafi borist frá fyrrum starfsfólki WOW air sem komi sér mjög vel hvað varðar áhafnir:

„Margir sem að sóttu um hjá okkur voru áður hjá WOW og eru nú þegar með þjálfun á Airbus vélarnar. Þetta kemur sér gríðarlega vel enda þarf ekki að þjálfa það starfsfólk upp frá grunni."

Hann segir starfsmenn á skrifstofu Play hafi unnið úr umsóknunum í vetur og allt sé að taka á sig mynd. Honum þykir líklegt að félagið muni auglýsa aftur eftir fólki þegar nær dregur og bendir á að hægt er að sækja um starf á FlyPlay þó svo að störfin hafi ekki verið auglýst.

Í loftið í haust

Hann segir allt klárt hjá fyrirtækinu og að þau bíðu nú eftir því að geta tekið á flug.

„Við erum í einstakri stöðu eins og er. Það er eiginlega bara þannig að við verðum að taka einn dag í einu núna vegna Covid-19 og meta stöðuna. Við erum tilbúin að koma fyrr ef það koma upp einhverjar aðstæður."

Arnar segir að það þurfi ákveðinn tíma til að selja í fluginn og annað en Play verði í síðasta lagi komið í loftið í haust.

„Það er enginn vafi þar á við verðum hundrað prósent komin í loftið þá."