Arion banki blæs um helgina til árs­há­tíðar en stærstur hluti Hörpu hefur verið leigður undir veisluna. Lands­lið þekktra tón­listar­manna verið bókaður til að spila í nokkrum sölum tón­listar­hússins. Þetta kemur fram í Við­skipta­blaðinu í dag.

Þar kemur fram að sitjandi borð­hald verði á árs­há­tíðinni og svo í kjöl­farið mun hefjast tón­listar­há­tíð. Klukkan 19:00 verður boðið upp á for­drykk þar sem DJ Dóra Júlía kemur gestum í stuð. 19:45 hefst svo sitjandi borð­hald í al­rými Hörpu á 2. og 3. hæð og borinn fram for­réttur og aðal­réttur. Skemmti­dag­skráin hefst svo klukkan 21:45 í Silfur­bergi, Hörpu­horni og Kola­braut en þar er jafn­framt boðið upp á eftir­rétti.

Öllu er tjaldað til en gestum gefst kostur á að hlýða á öll helstu tón­listar­stirni Ís­land eins og hljóm­sveitina Gus Gus, Emm­sjé Gauta, Jóa P og Króla, Herra Hnetu­smjör og Bríeti. Þá eru fleiri skemmti­at­riði og koma meðal annars fram Jógvan, Ari Eld­járn og Jakob Birgis­son. Öll munu þau koma fram á svipuðum tíma, í þéttri dag­skrá í mis­munandi sölum hússins.

Fréttir af veislunni vekja ekki síst at­hygli þar sem einungis eru þrír mánuðir síðan að hundrað manns var sagt upp störfum hjá bankanum. Þá var alls 150 manns sagt upp árið 2019. Á­stæðan sú að rekstur bankans hafði ekki staðið undir væntingum og þeim því ætlað að draga úr rekstrar­kostnaði Arion.

Við­skipta­blaðið hefur eftir Haraldi Guðna Eiðs­syni, upp­lýsinga­full­trúa bankans að um­fangið sé með svipuðu sniði og síðustu ár. Það megi rekja til þess að bankinn sé stór vinnu­staður. Í kjöl­far hóp­upp­sagnanna í septem­ber var starfs­manna­gleði bankans svo blásin af, enda lítil stemning fyrir því þá, líkt og Vísir hafði eftir með­limi í starfs­manna­fé­lagi Arion við til­efnið.