Öllu starfs­fólki fisk­vinnslu­fyrir­tækisins Ís­fisks á Akra­nesi, um sex­tíu manns, hefur verið sagt upp, að því er haft er eftir Vil­hjálmi Birgis­syni, for­manni Verka­lýðs­fé­lags Akra­ness á vef­síðu fé­lagsins.

Þar kemur fram að allar upp­sagnir séu gerðar með fyrir­vara um að fyrir­tækinu takist að endur­fjár­magna sig. Til þessa hafi það ekki tekist en sú vinna sé enn í gangi.

„Það er ó­hægt að segja að þessi tíðindi séu enn eitt þunga höggið sem við Akur­nesingar höfum þurft að þola í at­vinnu­málum á liðnum árum og misserum, en rétt er að geta þess að stór­hluti þeirra sem fengu þessi tíðindi í dag, gengu í gegnum upp­sagnir þegar HB Grandi lokaði og hætti allri starf­semi á Akra­nesi árið 2017,“ segir á vef­síðunni.

„For­maður telur ein­sýnt að bæjar­búar á Akra­nesi þétti nú raðirnar, því við getum ekki enda­laust látið fara svona með okkur þegar kemur að at­vinnu­öryggi og lífs­viður­væri bæjar­búa.“