Kristinn Ingi Jónsson
kristinningi@frettabladid.is
Miðvikudagur 25. mars 2020
07.00 GMT

Birgir Haraldsson, sérfræðingur hjá Akta sjóðum, segir að nú sé ekki tími fyrir seðlabanka heimsins til þess að sýna of mikla varkárni. Þeir verði að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að blása lífi í lömuð hagkerfi heimsins. Nýta þurfi öll vopnin í búrinu, rétt eins og þeir hafi verið að gera síðustu vikur og daga til þess að bregðast við efnahagsáhrifum kórónaveirunnar.

„Aðstæðurnar eru slíkar. Það er nær fordæmalaust að þetta stór hluti heimshagkerfisins sé í stoppi svona snögglega,“ segir Birgir í samtali við Markaðinn.

Jón Daníelsson, prófessor í hagfræði við London School of Econ­omics, segist hafa trú á því að eftir skarpa niðursveiflu geti hagkerfi heimsins tekið hratt við sér að nýju þegar faraldurinn hefur gengið yfir. Sveiflan verði líkast til „v-laga“.

„Það er ekki verið að eyðileggja nein grundvallaratriði í efnahagslífinu, svo sem verksmiðjur, iðnað eða mörg fyrirtæki. Þannig að við getum brugðist mjög hratt við þegar við höfum náð tökum á útbreiðslu veirunnar,“ nefnir Jón í samtali við Markaðinn.

Seðlabankar og stjórnvöld í ríkjum um allan heim hafa á síðustu dögum og vikum gripið til umfangsmikilla aðgerða – mun umfangsmeiri en í kjölfar fjármálahrunsins haustið 2008 – til þess að milda það mikla högg sem hagkerfi heimsins verða fyrir vegna útbreiðslu kóróna­veirunnar.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri, Jerome Powell, bankastjóri Seðlabanka Bandaríkjanna, Christine Lagarde, bankastjóri Evrópska seðlabankans, og Andrew Bailey, bankastjóri Englandsbanka.

Auk sögulega stórra björgunarpakka sem stjórnvöld víðast hvar hafa boðað – að umfangi meira en tug prósenta af landsframleiðslu ríkjanna – hafa seðlabankar í flestum ríkjum lækkað vexti í stórum skrefum, slakað á bindiskyldu og eiginfjárkröfum á banka og boðað kaup á skuldabréfum í mæli sem ekki hefur áður þekkst.

Gera „allt sem þarf“

Seðlabankastjórar og ráðamenn hafa undanfarið endurtekið fræg ummæli Mario Draghis, fyrrverandi bankastjóra Evrópska seðlabankans, sem lét hafa eftir sér í miðri evrukrísu á sumarmánuðum ársins 2012 að bankinn væri tilbúinn til þess að gera „allt sem þarf“ til þess að bjarga evrunni.

„Ekkert fyrirtæki, sama af hvaða stærð, mun verða í hættu á gjaldþroti“ vegna kórónafaraldursins, lýsti Emmanuel Macron, forseti Frakklands, yfir um leið og hann boðaði um þrjú hundruð milljarða evra ríkisábyrgð á lánum til franskra fyrirtækja sem glíma við lausafjárvanda í byrjun síðustu viku.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hafði nokkrum dögum áður lofað að gera „allt sem er nauðsynlegt“ til þess að takast á við áhrif faraldursins án þess að „við spyrjum okkur á hverjum degi hvað það þýði fyrir hallann á ríkissjóði“.

Þýska ríkisstjórnin hyggst í ljósi aðstæðna hverfa frá áratugastefnu sinni um hallalausan ríkisrekstur og engar nýjar lántökur, en hún hét því á sunnudag að auka ríkisútgjöld um liðlega 120 milljarða evra. Þau koma til viðbótar við 500 milljarða evra björgunarsjóð þýskra stjórnvalda sem mun fjárfesta í veikburða fyrirtækjum.

Christine Lagarde, bankastjóri Evrópska seðlabankans.

„Óvenjulegir tímar krefjast óvenjulegra aðgerða. Það eru engin takmörk fyrir skuldbindingum okkar gagnvart evrunni,“ áréttaði Christine Lagarde, bankastjóri Evrópska seðlabankans, þegar hún tilkynnti í miðri síðustu viku að bankinn hefði í hyggju að auka skuldabréfakaup sín um 750 milljarða evra á næstu níu mánuðum. Allt í allt mun bankinn þannig kaupa slík bréf, bæði ríkisbréf og fyrirtækjabréf, fyrir meira en 1.100 milljarða evra á tímabilinu.

Aðrir stærstu seðlabankar heims hafa einnig boðað stóraukin kaup á skuldabréfum á markaði, samhliða því sem þeir hafa lækkað vexti niður í sögulegar lægðir. Lágir stýrivextir – sem eru sums staðar jafnvel neikvæðir – hafa gert það að verkum að seðlabankar hafa þurft að reiða sig í æ ríkari mæli á önnur vopn í vopnabúrum sínum.

Seðlabankinn „rétt að byrja“

„Við erum bara rétt að byrja,“ sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri þegar hann kynnti í liðinni viku ákvarðanir nefnda bankans um að annars vegar lækka stýrivexti um hálft prósentustig, í annað sinn á einni viku, og hins vegar aflétta tveggja prósenta kröfu um sveiflujöfnunarauka á bankana.

Í kjölfar vaxtalækkananna eru stýrivextir 1,75 prósent og hafa aldrei verið lægri.

„Við höfum þegar séð hundrað punkta lækkun á stýrivöxtum,“ segir Birgir, „og ég tel ekki ólíklegt að þeir lækki enn frekar og fari niður í eitt prósent. Lágir vextir eru mikilvægir í núverandi umhverfi til þess að styðja við fyrirtæki og heimili og sömuleiðis eignamarkaði eins og fasteignamarkaðinn.“

Lækkun bindiskyldunnar og sveiflujöfnunaraukans hafi auk þess verið gott og tímabært skref sem veiti bönkunum aukið svigrúm til þess að hjálpa fyrirtækjum að fleyta sér yfir þennan skell.

Ásgeir tók jafnframt fram á fyrrnefndum fundi að sameinuð stofnun Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins byggi yfir „ótal tækjum“ til þess að bregðast við efnahagsáhrifum kórónaveirunnar.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Fréttablaðið/Anton Brink

Og það liðu ekki nema fimm dagar þar til peningastefnunefnd Seðlabankans, með seðlabankastjóra í forsvari, ákvað að bankinn skyldi beita einu af umræddum tækjum sínum og hefja bein kaup á ríkisskuldabréfum í því skyni að fjármagna fyrirséðan hallarekstur ríkissjóðs.

Í yfirlýsingu nefndarinnar var tekið fram að útgáfa ríkisskuldabréfa myndi að öðru óbreyttu – án aðkomu Seðlabankans – draga úr lausafé í umferð og þrýsta upp ávöxtunarkröfu slíkra bréfa. Það myndi trufla „eðlilega miðlun peningastefnunnar á sama tíma og aðgerðir Seðlabanka Íslands miða að því að létta á fjármálalegum skilyrðum heimila og fyrirtækja“.

Rétt eins og skuldabréfafjárfestar tóku vel í áform bankans – en skuldabréfavísitala GAMMA rauk upp um 1,4 prósent sama dag og tilkynnt var um fyrirhuguð kaup – tekur Birgir þeim fagnandi. Hann segir tilkynningu Seðlabankans ekki hafa komið beinlínis á óvart en sýni svart á hvítu að bankinn sé tilbúinn til þess að beita öllum sínum tækjum til þess að styðja við hagkerfið í gegnum erfiða tíma.

Útvíkki kaupáætlanir sínar

„Bankinn tilkynnti um kaup á ríkisskuldabréfum en ég get ímyndað mér að þegar fram líða stundir, vextir hafa lækkað frekar og meiri viðspyrnu vantar í hagkerfinu, að bankinn hefji einnig kaup á skuldabréfum sveitarfélaga og sértryggðum bréfum bankanna.

Við sjáum á aðgerðum erlendra seðlabanka að þeir eru óhræddir við að stíga stór skref ef þeir telja þörf á og útiloka fátt í þeim efnum. Það ætti ekki að hugsa um Seðlabankann hérna neitt öðruvísi,“ nefnir Birgir.

Hlutirnir breytist hratt þessa dagana og nýjar aðgerðir seðlabanka um allan heim séu kynntar nær daglega.

Birgir Haraldsson, sérfræðingur í Akta sjóðum.

Hvað aðgerðir Seðlabanka Íslands varðar er „allt í rétta átt“ að mati Birgis. „Vextir hafa lækkað og þegar þeir eru orðnir þetta lágir og líklegir til að lækka enn frekar þarf að huga að því að beita öðrum tækjum. Til dæmis ætti að reiða sig frekar á veikingu krónunnar til þess að örva hagkerfið og styrkja útflutningsgreinarnar á borð við ferðaþjónustuna.

Svigrúmið er talsvert enda hefur veiking krónunnar hingað til ekki smitast af neinu ráði inn í verðbólguvæntingar og auðséð er að framleiðsluslakinn verði gífurlegur næstu misseri. Það er lítil hætta á verðbólguskoti í þessu umhverfi. Á sama tíma er hægt að hafa áhrif á langtímavexti með því að hefja kaup á ríkisskuldabréfum eins og til stendur að gera og öðrum skuldabréfum á markaði ef þörf er á. Það þarf að nýta öll tækin til þess að skapa hér viðspyrnu því ljóst er að efnahagshöggið er mjög þungt,“ segir Birgir.

230 milljarða króna pakki

Auk áðurnefndra aðgerða Seðlabankans kynnti ríkisstjórnin um liðna helgi aðgerðir, sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði „stærstu einstöku efnahagsaðgerðir sögunnar“ til þess að bregðast við áhrifum faraldursins, sem nema um 230 milljörðum króna eða tæplega átta prósentum af landsframleiðslu að umfangi.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynntu efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar á blaðamannafundi í Hörpu á laugardag.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Þar ber meðal annars hæst ríkis­ábyrgð á brúarlánum til lífvænlegra fyrirtækja og lækkun bankaskatts, sem er hvort tveggja ætlað að auðvelda fyrirtækjum að standa í skilum, greiðslu ríkisins á allt að 75 prósentum launa starfsfólks sem lækkar í starfshlutfalli og frestun og afnám opinberra gjalda.

Umfang aðgerðanna er ekki ósvipað þeim aðgerðum sem stjórnvöld nágrannaríkja Íslands hafa kynnt á undanförnum vikum en umfang þeirra nemur gróft á litið á bilinu fimm til fimmtán prósentum af landsframleiðslu ríkjanna.

Brýnast að vernda fólk

Jón segir að heilt yfir hafi yfirvöld og seðlabankar um heiminn brugðist tiltölulega vel við útbreiðslu veirunnar. Það sem skipti mestu máli sé að vernda það fólk sem verði fyrir áföllum.

„Það er mikilvægt að þetta fólk, til dæmis þeir sem starfa í atvinnugreinum sem verða fyrir miklum áhrifum af veirunni, fái vernd þar til það getur farið að starfa aftur annars staðar,“ nefnir Jón.

Aðgerðir sem gripið hafi verið til víða um heim, frestun á ýmsum afborgunum og greiðslum á meðan ástandið varir, séu af hinu jákvæða.

„Það sem ég óttast hins vegar,“ bætir Jón við, „er að við hjálpum einkafyrirtækjum of mikið. Ég lít svo á að það sé ekki hlutverk ríkisvaldsins að aðstoða eigendur fyrirtækja sem eru í áhætturekstri.

Ef einkafyrirtæki verða gjaldþrota eða fara illa út úr þessum hremmingum er heldur ekki eins og að verksmiðjur, flugvélar eða framleiðslutæki muni eyðileggjast, heldur ætti einhver annar að geta keypt þau og haldið áfram að veita þá þjónustu sem þau veittu.

Í mínum huga er það lykilatriði að ef ríkið á að koma að málum og bjarga einkafyrirtækjum sem eru í mikilvægum rekstri, hvort sem það eru framleiðslufyrirtæki eða fjármálafyrirtæki, verði það á móti að fá eignarhald í fyrirtækjunum. Það er algjört skilyrði. Eigendur fyrirtækja eru í áhætturekstri og ríkið á ekki að vernda fólk í slíkum rekstri. Við þurfum að vernda framleiðslu fyrirtækjanna og starfsmenn þeirra en ekki eigendur,“ segir Jón.

Betra að gera of mikið

Þess ber að geta að nýkynntur aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar er aðeins fyrstu aðgerðir stjórnvalda. „Við erum mjög meðvituð um að það muni þurfa að gera meira,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra þegar hún kynnti aðgerðirnar síðasta laugardag.

Bjarni hefur áður ítrekað í þessu sambandi að það sé „betra að gera meira og taka af því kostnað en að gera of lítið“.

Birgir segist taka undir þau skilaboð.

„Það er til dæmis lítið mál að hækka vexti að nýju og vinda þannig ofan af kröftugum vaxtalækkunum ef hagkerfið tekur við sér, í stað þess að missa frá sér aðstæður vegna ofurvarkárni. Seðlabankinn og stjórnvöld eiga að nýta öll þau tæki sem þau búa yfir og sýna í orði og verki að allt sé undir. Það eru réttu viðbrögðin og við höfum verið að sjá það gerast sem er jákvætt,“ nefnir Birgir.


Seðlabankinn og stjórnvöld eiga að nýta öll þau tæki sem þau búa yfir og sýna í orði og verki að allt sé undir.


Býst við hröðum bata eftir skarpa niðursveiflu

„Þegar við horfum til baka eftir um hálfan áratug tel ég að við munum líklega sjá að áhrifin af vírusnum hafi verið miklu minni en við héldum að þau yrðu í seinni hluta mars árið 2020,“ segir Jón um efnahagsáhrif kórónaveirunnar.

Hann segir að vissulega verði „mikið áfall í efnahagslífinu á þessum og næsta fjórðungi, mögulega um tveggja til þriggja prósenta samdráttur í þjóðarframleiðslu, sem er slæmt mál en þó enginn heimsendir. Miðað við fyrirsagnir blaðanna og andrúmsloftið núna munum við sennilega sjá að efnahagsástandið verði betra en við gætum haldið“.

Ástæðan sé meðal annars sú að fólk verði flest ekki fyrir miklum efnahagslegum áhrifum af faraldrinum næsta hálfa árið. Flestir starfsmenn muni halda vinnu og launum.

Jón Daníelsson, prófessor í hagfræði við London School of Economics.
Fréttablaðið/GVA

Jón segist hafa trú á því að eftir skarpa niðursveiflu geti hagkerfi heimsins tekið hratt við sér að nýju þegar faraldurinn hefur gengið yfir. Sveiflan verði líkast til „v-laga“.

„Það er ekki verið að eyðileggja nein grundvallaratriði í efnahagslífinu, svo sem verksmiðjur, iðnað eða mörg fyrirtæki. Þannig að við getum brugðist mjög hratt við þegar við höfum náð tökum á útbreiðslu veirunnar.

Þetta er ekkert í líkingu við efnahagshrunið árið 2008. Það kom til vegna innri vandamála fjármálakerfisins. Nú verðum við fyrir eftirspurnarfalli. Flestar fjármálakrísur eru búnar til af fjármálakerfinu sjálfu og þær eru svo skaðlegar því þegar fjármálakerfið hættir að veita þjónustu fá fyrirtæki ekki lánsfjármagn, ekki verður hægt að stunda eðlilega verslun og mikill langtímasamdráttur verður í efnahagslífinu.

Nú er mikilvægasti hluti fjármálakerfisins, bankarnir, hins vegar í mjög góðri stöðu. Þeir búa yfir miklu eigin fé og hafa sterka lausafjárstöðu. Bankarnir eru heldur ekki að lána þeim sem eru hvað skuldsettastir. Aðrir, til að mynda ríkisfjárfestingasjóðir og skuldabréfasjóðir, sjá um það. Jafnvel þótt slíkir sjóðir verði fyrir skelli mun það ekki hafa gríðarleg áhrif í efnahagslífinu.

Þannig að allt bendir til þess að bankakerfið muni áfram geta starfað í gegnum þetta tímabil og það er mjög mikilvægt,“ segir Jón.


Það er ekki verið að eyðileggja nein grundvallaratriði í efnahagslífinu, svo sem verksmiðjur, iðnað eða mörg fyrirtæki. Þannig að við getum brugðist mjög hratt við þegar við höfum náð tök á útbreiðslu veirunnar.


Hann bendir þó á að vissulega muni einhverra langtímaáhrifa gæta af efnahagsáfallinu sem nú dynur yfir.

„Skipulagning efnahagslífs heimsins mun breytast af þessum sökum. Efnahagslífið mun líta töluvert öðruvísi út eftir vírusinn en fyrir hann. Það þarf ekki endilega að vera jákvætt fyrir Íslendinga en það er ekki endilega neikvætt fyrir heiminn,“ segir Jón.

Athugasemdir