Framkvæmdastjóri rafhleðslufyrirtækisins Ísorku segist ekki hafa átt von á því að standa í málaferlum við ríki og sveitarfélög þegar fyrirtækið hóf rekstur hleðslustöðva fyrir rafbíla. Hann segir bagalegt að leikreglur séu ekki skýrar í tengslum við orkuskipti á samkeppnismarkaði.

Ísorka sérhæfir sig í öllu sem tengist rafbílum en fyrirtækið hóf gjaldtöku á hleðslustöðvum fyrir rafbíla árið 2018.

Sigurður Ástgeirsson framkvæmdastjóri segir vöxtinn á markaði fyrir rafbíla hafa verið ævintýralegan undanfarin ár. Þróunin hafi verið hraðari en hann óraði fyrir.

„Ég hef nú alltaf sagt, meira í gríni en alvöru, að þegar við stofnuðum Ísorku þá vissum við ekkert hvað við vorum að fara út í. Vissum ekkert hvað markaðurinn vildi. Þetta var allt svo nýtt,“ segir Sigurður.

Einhvern veginn hafi fyrirtækinu þó tekist að vera leiðandi í rafvæðingu bílaflotans undanfarin ár.

„En það sem við höfum lært er að það skiptir mestu að lesa markaðinn og laga sig að þörfum hans. Gæta þess að hlaupa ekki of hratt en vera samt tilbúin til að vera sveigjanleg og fljót að bregðast við. Það versta sem þú gerir þegar allt er á fleygiferð er að gera ekki neitt.“

Ég gerði ekki ráð fyrir að vera í samkeppni, eða standa í málaferlum, við Reykjavíkurborg eða önnur sveitarfélög.

Sigurður segir fyrirtæki eins og Ísorku eðlilega mjög háð flutningskerfi raforku og því í stöðugu samtali við veitufyrirtækin.

„En það sem hefur verið að gerast að undanförnu er að dæmið er dálítið farið að snúast við í þessum samskiptum. Veitufyrirtækin eru meira farin að leita til okkar til að leysa sameiginleg vandamál. Til dæmis varðandi snjallvæðingu eða betri dreifingu álags í kerfunum. Allt snýst þetta á endanum um gott samstarf og samtal á milli fyrirtækja og stofnana sem standa í stafni þessara breytinga.“

Helstu áskoranirnar um þessar mundir, að mati Sigurðar, snúa að leikreglum og því regluverki sem gildi á þessum markaði.

„Þegar Ísorka varð til þá gerði ég ekki ráð fyrir því að vera í samkeppni, eða standa í málaferlum, við Reykjavíkurborg eða önnur sveitarfélög. Við gerðum heldur ekki ráð fyrir því að vera í samkeppni við ríkissjóð vegna þess hve óljóst regluverkið er."

Við þurfum að fá á hreint hvert hlutverk opinberra fyrirtækja á að vera á þessum markaði.

Sigurður segir brýnt að greiða úr þeim flækjum sem gera litlum og meðalstórum fyrirtækjum erfitt fyrir.

„Við þurfum að fá á hreint hvert hlutverk opinberra fyrirtækja á að vera á þessum markaði.

Það sem er óvenjulegt við þriðju orkuskiptin, umfram önnur orkuskipti, er að þau fara fram á samkeppnismarkaði. Það er gríðarlega stór áskorun. Þess vegna verða leikreglurnar að vera skýrar.“

Kallað hefur verið eftir álitum frá eftirlitsaðilum að sögn Sigurðar til að fá úr þessu skorið.

„Við höfum líka þurft að kæra einstakar ákvarðanir. Ekki til þess að vera með leiðindi heldur til þess að kalla fram skýrar reglur. Til þess að átta okkur á umhverfinu. Hvort það sé sanngjarnt. Á endanum snýst þetta ekki síst um hagsmuni notenda og þeirra fyrirtækja sem leiða þessa mikilvægu þróun,“ segir Sigurður.