Bandaríski athafnamaðurinn og listaverkasafnarinn William Oli­ver Luckett hefur sett Kjarvalshús við Sæbraut 1 á Seltjarnarnesi á sölu.

Luckett festi kaup á húsinu árið 2016. Luckett er meðal annars fram­kvæmda­stjóri the Audience sem hjálp­ar stjörn­um í Hollywood að koma sér á fram­færi á samfélagsmiðlum. Hann er mikill safnari og á lista­verk eft­ir marga íslenska sem og erlenda listamenn eins og sjá má á myndunum.

Húsið er tæplega 450 fermetrar að stærð og skartar fimm svefnherbergjum, 110 fermetra sal með fimm metra lofthæð, tveimur stórum stofum, eldhúsi, þremur baðherbergjum, þvottahúsi og bílskúr.

Kjarvalshús var á sínum tíma sér­smíðað fyrir Jóhann­es S. Kjar­val listmálara árið 1969 sem gjöf frá ís­lensku þjóðinni. Kjarval bjó þó aldrei sjálfur í húsinu og var það notað undir þjónustu við fötluð börn. Húsið, sem var teiknað af Þorvaldi S. Þorvaldssyni arkitekt, er metið á 178,5 milljónir króna.

Listakonan Hrafnhildur Arnardóttir, sem þekkt er undir listamannsnafninu Shoplifter, hannaði eitt herbergi í húsinu og er það því þakið hárum í öllum regnbogans litum.

Fréttablaðið/Anton Brink
Fasteignaljósmyndun
Fasteignaljósmyndun
Fasteignaljósmyndun
Fasteignaljósmyndun
Fasteignaljósmyndun
Fasteignaljósmyndun