Heimsmarkaðsverð á hráolíu hækkaði um nærri 20 prósent — mesta verðhækkun á olíu í þrjá áratugi — eftir árásir á tvö ol­íu­mann­virki Saudi Aramco í Sádi-Ar­ab­íu.

Verð á Brent olíu hækkaði í kjölfarið um nærri 12 Bandaríkjadali upp í 71,95 en lækkaði svo niður í 66,75 dali.

Verðhækkunin kom í kjölfar frétta frá Sádi-Arabíu um að framleiðslan yrði töluvert undir framleiðslugetu á næstu vikum, að því er Financial Times greinir frá. Óttast fjárfestar hversu langan tíma það muni taka að koma framleiðslunni í fyrra horf og endurspeglaðist það í gullverði sem hækkaði um 1 prósent í kjölfarið.

Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti á Twitter, rétt áður en markaðir opnuðu, að Bandaríkin myndu ganga á varabirgðir sínar af olíu ef þess þyrfti.

Framleiðslutap upp á 5 milljónur olíutunna á hverjum degi, sem jafngildir 5 prósentum af heimsframleiðslu, er umfangsmesta framleiðslutap á olíu vegna eins tiltekins atburðar. Þá er verðhækkunin sú mesta síðan Saddam Hussein réðst inn í Kúvaít árið 1990.

Upp­reisn­ar­menn Hú­tím­anna hafa lýst yfir ábyrgð á árásunum og sögðust hafa notast við dróna. Bandarísk stjórnvöld telja hins vegar að Íran standi að baki árásunum.