Heimsmarkaðsverð á olíu rauk upp um meira en fimmtung í gær eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti lýsti því yfir að hann hefði komið á samtali á milli leiðtoga Sádi-Arabíu og Rússlands um mögulega framleiðsluskerðingu.

Slíkt samkomulag myndi binda enda á verðstríðið sem hefur geisað á alþjóðlegum olíumarkaði síðustu vikur í kjölfar þess að ekki náðist samkomulag í byrjun síðasta mánaðar á milli rússneskra stjórnvalda og OPEC, samtaka olíuframleiðsluríkja, um að draga úr framleiðslu.

Trump greindi frá því á Twittersíðu sinni um miðjan dag í gær að Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu, og Vladimir Pútín, forseti Rússlands, hefðu hafið viðræður um hvernig hægt væri að draga úr olíuframleiðslu um allt að fimmtán milljónir tunna á dag. Til samanburðar var eftirspurn síðasta árs um eitt hundrað tunnur á dag.

„Ég býst við og vona að þeir muni skerða framleiðslu um tíu milljónir tunna og mögulega talsvert meira. Það yrði frábært fyrir olíu- og gasiðnaðinn,“ skrifaði Trump.

Í kjölfar yfirlýsingar forsetans á Twitter rauk heimsmarkaðsverð á olíu upp um allt að fimmtíu prósent en hækkunin gekk að hluta til baka eftir því sem leið á daginn, eftir því sem fram kemur í frétt Financial Times um málið.

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að samkomulag um endalok verðstríðs Rússa og Sádi-Araba sé „yfirvofandi“.
Fréttablaðið/Getty

Dmitry Peskov, talsmaður Pútíns, þrætti hins vegar fyrir að forsetinn og krónprinsinn hefðu ræðst við og sagði að slíkar viðræður væru ekki fyrirhugaðar.

Yfirvöld í Sádi-Arabíu boðuðu í gær til neyðarfundar á vettvangi OPEC, ásamt öðrum olíuframleiðsluríkjum, þar á meðal Rússlandi, og sögðust vilja ná „sanngjörnum“ samningi um framleiðslu. Þau lofuðu þó engum skerðingum.

Trump lét hafa eftir sér á miðvikudag að samningur um endalok verðstríðs Rússa og Sádi-Araba væri „yfirvofandi“.

Verð á Brent-hráolíu hefur ekki verið lægra frá árinu 2002. Tunnuverðið hækkaði hins vegar um 21 prósent í gær, eins og áður sagði, og fór í 30 dali. Það hækkaði svo í 31 dal í morgun.

Robert Rennie, sérfræðingur hjá Westpac, segir í samtali við Financial Times að væntingar Trumps Bandaríkjaforseta um framleiðsluskerðingar upp á fimmtán milljónir tunna á dag séu fremur óraunhæfar. „Erfitt“ sé að sjá olíuframleiðsluríki heims geta dregið svo mikið úr olíuframboði án mikilla vandkvæða.