Olíuverzlun Íslands hefur kolefnisjafnað allan rekstur félagsins en um er að ræða allan akstur, flug og dreifingu eldsneytis til viðskiptavina félagsins um allt land.

Verkefnið er unnið í samstarfi við Landgræðsluna en Olís og Landgræðslan hafa átt í samstarfi undanfarin 30 ár og undirrituðu sl. föstudag samstarfssamning til næstu fimm ára.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu en þar er haft eftir Jóni Ólafi Halldórssyni, forstjóra Olís, að þótt samningurinn við Landgræðsluna sé til fimm ára þá horfi Olís lengra fram í tímann. ,,Þetta er samstarfsverkefni sem á sér rætur 30 ár aftur í tímann og ég lít svo á að við munum vinna þetta áfram með Landgræðslunni í framtíðinni."

Olís hefur styrkt Landgræðsluna um tæplega 80 milljónir á um þremur áratugum en á meðal helstu verkefna Landgræðslunnar eru uppgræðsla lands og endurheimt votlendis.