Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, segir að óvíst sé að hlutabréfaverð hækki jafn mikið og það gerði á síðasta ári. Þetta sagði hann í sjónvarpsþættinum Markaðurinn sem sýndur verður á Hringbraut klukkan 19:00 í kvöld.

„Árið 2021 var að mörgu leyti óvenjulegt því að voru svo miklar hækkanir á mörkuðum og heildarvísitalan hækkaði um 40 prósent og það er ólíklegt að við endurtökum þessar miklu hækkanir,“ segir Magnús en bætir við að hann telji að árið á mörkuðum verði þó heilt yfir gott.

„Ég tel að við munum sjá að minnsta kosti jafn margar eða fleiri nýskráningar á árinu heldur en í fyrra. Við sjáum vonandi áframhaldandi sölu á hlutum í Íslandsbanka líka. Ég held að árið verði gott og að markaðir haldi áfram að styrkjast og dafna.“

Aðspurður hvort hann telji að áhugi almennings muni aukast en frekar á árinu segir hann að það geti vel gerst. „Ég tel að þátttaka almennings gæti aukist því þó svo vextir séu að hækka eru þeir enn sögulega lágir. Miklar hækkanir á mörkuðum hafa ýtt undir þennan áhuga og ég tel að þessi útboð sem eru framundan munu einnig auka áhugann. Ég er bjartsýnn á þátttöku almennings á hlutabréfamarkaði á komandi misserum og tel að aukin fræðsla muni auka áhugann.“

Hann bætir við að þó þátttaka almennings á hlutabréfamarkaði hér á landi sé góð sé þó enn langt í land að hún verði á pari við það sem gengur og gerist erlendis.

„Ef við viljum bera okkur saman við það sem best gerist eigum við enn langt í land. Við erum helminginn á við Bandaríkin ef við miðum við höfðatölu og einungis þriðjungur á við Svía. Það felast mikil tækifæri í aukinni þátttöku almennings og almenningur sýnir nýsköpunar og vaxtafyrirtækjum yfirleitt áhuga. Það vill svo oft gerast að almenningur framkalli nýskráningar því með auknum áhuga almennings eykst vilji fyrirtækja til að skrá sig á markað. Með þessu framkallar almenningur í raun fjárfestingartækifæri fyrir sjálfan sig.“