Á sunnudag sagði Anthony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna í fréttaþættinum Meet the Press á NBC sjónvarpsstöðinni í Bandaríkjunum að Bandaríkin væru, ásamt bandamönnum sínum í Evrópu, að skoða möguleika á að banna innflutning rússneskrar olíu til Evrópu og Bandaríkjanna, jafnframt því sem óbreytt framboð í heiminum yrði tryggt.

Úkraínumenn hafa kallað eftir því að rússnesk olía verði sniðgengin með öllu.

Þjóðverjar hafa hins vegar varað eindregið við sniðgöngu á rússneskri olíu og gasi, enda er Þýskaland mjög háð þessum orkugjöfum. Annalena Baerbock, utanríkisráðherra Þýskalands, sagði slíka aðgerð tilgangslausa ef nauðsynlegt yrði að afturkalla hana eftir nokkrar vikur vegna yfirvofandi orkuskorts.

Brynjólfur Stefánsson, sjóðsstjóri hjá Íslandssjóðum, stýrði afleiðubók bandaríska fjárfestingabankans Morgan Stanley í hráolíu á árunum 2006-2016. Hann segir Evrópu mun háðari rússneskri olíu en Bandaríkin. Á meðan Bandaríkin flytji inn um 200 þúsund tunnur af rússneskri olíu og um 500 þúsund tunnur af olíuvörum á dag fái Evrópa meira en 25 prósent sinnar olíu frá Rússlandi og um fjórðung jarðgass.

„Ég á erfitt með að sjá sniðgöngu Evrópu á olíu og gasi frá Rússlandi ganga upp til lengdar,“ segir Brynjólfur. Hann bendir á að OPEC hafi fyrir helgi ákveðið að halda sig við fyrra samkomulag og auka ekki olíuframleiðslu umfram það. Vestræn ríki séu þegar farin að setja varabirgðir sínar af olíu á markað.

Hann segir athygli hafa vakið fyrir helgi þegar Shell olíufyrirtækið keypti olíu frá Rússlandi með miklum afslætti frá Norðursjávarolíu, sem hefur hækkað gífurlega frá því að innrás Rússa í Úkraínu hófst.