Icelandair Group telur ólíklegt að allir fyrirvarar vegna kaupa félagsins á WOW air verði uppfylltir fyrir hluthafafund félagsins sem verður haldinn næsta föstudag, 30. nóvember.

Þetta kemur fram í stuttri tilkynningu sem flugfélagið sendi Kauphöllinni rétt fyrir hádegi í dag.

Tilkynnt var um kaupin 5. nóvember síðastliðinn en þau eru gerð með fyrirvara um samþykki hluthafafundar Icelandair Group og Samkeppniseftirlitsins og niðurstöðu áreiðanleikakönnunar.

Í tilkynningu Icelandair Group segir að á dagskrá hluthafafundarins á föstudag sé tillaga um að samþykkja kaup félagsins á WOW air. Í kaupsamningi séu ýmsir fyrirvarar sem þurfi að vera uppfylltir. Miðað við stöðu málsins í dag telur Icelandair Group ólíklegt að allir fyrirvarar verði uppfylltir fyrir þann tímapunkt.

„Áfram verður unnið í málinu og viðræður standa yfir milli samningsaðila um framgang málsins,“ segir í tilkynningunni.

Fjármálaeftirlitið ákvað í morgun að stöðva tímabundið viðskipti með hlutabréf í Icelandair Group í Kauphöllinni en í stuttri tilkynningu frá eftirlitinu segir að ákvörðunin hafi verið tekin til þess að vernda jafnræði fjárfesta.