Olíurisinn Shell segir hámarki olíuframleiðslu náð í tilkynningu frá fyrirtækinu. Hámarki hafi verið náð árið 2019 og ekki sé útlit fyrir að annað eins magn olíu verði framleitt í framtíðinni. Losun koltvísýrings hafi náð hámarki árið 2018, þar sem 1.7 gígatonnum af koltvísýringi var sleppt út í andrúmsloftið.

Þessi tilkynning Shell ætti ekki að koma á óvart þar sem niðursveifla hefur verið á olíumörkuðum undanfarin ár. Shell afskrifaði eignir fyrir tæpa 22 milljarða dollara í fyrra og fyrir skemmstu tilkynnti bandaríski olíuframleiðandinn Exxon Mobil um 22 milljarða dollara tap á síðasta ári. Það er stærsta tap fyrirtækisins á einu ári í fjóra áratugi.

Olíu­tank­skip Exxon Mobil.

COVID-19 faraldurinn hefur átt stóran þátt í erfiðu gengi olíufyrirtækja þar sem orkunotkun hefur minnkað og verð á olíu fallið í samræmi við það. Alþjóðaorkumálastofnunin lýsti því yfir í fyrra að „varasamt“ ástand gæti orðið viðvarandi í bransanum. Í septem­ber tók olíu­risinn í sama streng og Shell hefur nú gert og sagði að olíu­tindinum hefði verið náð og fram undan væri niður­sveifla í olíu­fram­leiðslu og notkun.

Í tilkynningu Shell kom einnig fram að fyrirtækið stefndi að því að vera hlutlaust hvað losun koltvísýrings varðaði árið 2050, meðal annars með að auka hlut sinn í framleiðslu orku með lífeldsneyti. Rannsóknir benda hins vegar til þess að slík orkuframleiðsla sé litlu minna mengandi en framleiðsla orku með náttúrugasi og dísilolíu.

Verk­­smiðja Great Plains Syn­fu­els í Beulah í North Dakota í Banda­­ríkjunum sem fram­leiðir náttúru­gas.
Fréttablaðið/EPA

Shell stefnir að því að hlutur lí­felds­neytis og vetnis í orku­fram­leiðslu þess verði um 10 prósent fyrir árið 2030. Það ætlar sömu­leiðis að auka fram­leiðslu orku með náttúrugasi og bæta slíka fram­leiðslu­getu um sem nemur um sjö milljónum tonna fyrir miðjan ára­tuginn. Þrátt fyrir Shell ætli sér að eyða þremur milljörðum dollara í endur­nýjan­lega orku­gjafa á komandi árum eyðir það enn tugum milljarða dollara í leit að olíu og náttúrugasi.

Þó svo að Shell telji að há­marks­fram­leiðslu olíu sé náð, sem eru góðar fréttir fyrir um­hverfið, mun það hafa slæm á­hrif á starfs­fólk þess. Það gerir ráð fyrir að aukin fram­leiðsla orku með endur­nýtan­legum að­ferðum leiði til þess að um tíu prósentum af starfs­fólki þess verði sagt upp.