Nokkur ólga er innan Flug­freyju­fé­lagsins vegna endur­ráðninga um tvö hundruð fé­lags­manna hjá Icelandair. Sam­kvæmt heimildum Frétta­blaðsins er nokkur hópur innan fé­lagsins, með langan starfs­aldur, sem telur að hann hafi átt rétt á endur­ráðningu en hefur ekki fengið slíkar. Guð­laug Lín­ey Jóhanns­dóttir, for­maður Flug­freyju­fé­lags Ís­lands, hefur til­kynnt fé­lags­mönnum um að stjórn fé­lagsins hafi fundað með lög­fræðingum vegna stöðunnar.

Bogi Nils Boga­son, for­stjóri Icelandair, sagði í kvöld­fréttum RÚV í gær að farið yrði eftir „starfs­aldri og frammi­stöðu“ við endur­ráðningar flug­freyja og -þjóna. Fyrir­hugað væri að um 200 flug­freyjur myndu starfa hjá Icelandair í ágúst og septem­ber og þá yrði staðan endur­metin.

Sam­­kvæmt heimildum Frétta­blaðsins virðast nú dæmi um það að ein­hverjar flug­freyjur sem ættu að vera endur­­ráðnar ef farið er eftir starfs­aldri hafi ekki fengið póst frá Icelandair um endur­­ráðningu eins og ein­hverjar sem eru með styttri starfs­aldur. Þá standa ein­hverjar í trú um að það sé vegna þess að þær hafi farið í veikinda­­leyfi á starfs­aldri sínum og eru margir fé­lags­­menn mjög ó­­sáttir vegna þessa.

Einnig virðist ó­­­ljóst hvort þeir sem starfi eftir tíma­bundnum ráðningar­­samningi hjá Icelandair, það er sumar­­starfs­­menn sem voru ráðnir í byrjun mars, megi vinna sam­­kvæmt kjara­­samningi eftir að fast­ráðnum starfs­­mönnum hefur verið sagt upp. Samningar sumar­­starfs­mannanna gilda flestir út septem­ber en ljóst er að upp­­­sagnar­frestur ein­hverra þeirra sem var sagt upp hjá Icelandair rennur út þann 1. septem­ber.

Það er vegna þess að þær 871 flugfreyjur, sem sagt var upp í byrjun maí, eru með mis­langan starfs­aldur og því mis­jafnt hve­nær upp­sagnar­frestur þeirra rennur út. Hluti hópsins verður án at­vinnu þann 1. ágúst þegar upp­sagnar­frestur hans rennur út, annar hluti hópsins dettur út 1. septem­ber og sá síðasti þann 1. októ­ber.

Ekki náðist í Guð­laugu Lín­eyju við gerð fréttarinnar þrátt fyrir í­trekaðar til­­raunir. Drífa Snæ­­dal, for­­seti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), sagði í sam­tali við Frétta­blaðið að kjara­­samningar flug­freyja væru flóknir og að Flug­freyju­­fé­lagið væri nú að skoða þessi mál.