Michael O'Leary, forstjóri Ryanair, telur að rekstrarumhverfið í fluggeiranum muni halda áfram að grisja út flugfélög og nefnir WOW air sem dæmi.

Breska lággjaldaflugfélagið hefur gefið út afkomuviðvörun fyrir rekstrarárið en fargjöld hafa verið lægri en búist var við, að því er breska ríkisútvarpið greinir frá. Lækkar afkomuspáin úr 1,1 til 1,2 milljörðum punda niður í 1 til 1,1 milljarð.

O'Leary útilokar ekki að Ryanair þurfi að lækka fargjöld enn frekar. Ryanair hafði búist við því að fargjöld lækkuðu um 2 prósent í vetur en nú er útlit fyrir að lækkunin nemi 7 prósentum. Þá segir hann offramboð af styttri flugferðum innan Evrópu.

„Við höfum trú á því að þetta lággjaldaumhverfi muni halda áfram að grisja út (e. shake out) keppinauta í taprekstri en WOW, Flybe, og mögulega Germania, eru öll til sölu svo dæmi séu tekin,“ segir O'Leary.