Heimsókn bandarísks öldungadeildarþingmanns í Sjávarklasann á Grandagarði varð til þess að drög að frumvarpi til Öldungadeildar Bandaríkjaþings um bandaríska sjávarklasa eru nú í undirbúningi. Þetta kom fram í viðtali við Þór Sigfússon, stofnanda Sjávarklasans, í Markaðinum á Hringbraut í gærkvöldi.

Þór segist afar ánægður með að unnið sé að því að leggja grunn að sjávarklösum í Bandaríkjunum að hætti Íslenska sjávarklasans. Hann segir að tilkoma Hringborðs norðursins, sem Ólafur Ragnar Grímsson kom á fót, hafi haft mikil áhrif á þá eftirspurn sem Sjávarklasinn hefur fundið víða um heim.

Þessi frumvarpsdrög voru kynnt í ræðu Lisu Murkowski, öldungadeildarþingmanns Alaskaríkis, sem hefur forystu um þetta frumvarp, á Hringborði norðursins sem haldið var Í Hörpu fyrr árinu.

Lisa Murkowski, öldungadeildarþingmanns Alaskaríkis.
Fréttablaðið/Anton Brink

Þingmaðurinn nefndi í ræðu sinni að hún hefði heimsótt Íslenska sjávarklasann og séð allan þann fjölda vara sem íslenskir frumkvöðlar í klasanum hafa þróað, úr meðal annars fiskafgöngum og þá nýsköpun aðra sem þar fer fram. Tilgangur frumvarpsins væri að ýta undir sambærilega þróun í Bandaríkjunum, þar sem stórum hluta af hliðarafurðum þess afla sem veiddur er, sé hent.

„Einn af okkar fyrstu klösum, sem settir hafa verið upp utan Íslands, var einmitt í Alaska. Það hefur án efa haft sitt að segja um þann áhuga sem Alaskabúar hafa á aukinni nýsköpun í sjávarútvegi.“

Þór segir að Íslendingar hafi mikil tækifæri til að hjálpa öðrum þjóðum við að bæta umgengni sína við hafið og það ætti að verða eitt okkar stærsta framlag á heimsvísu til umhverfismála.

„Við erum þegar í forystu á heimsvísu í að nýta hliðarafurðir og búa til úr þeim allt milli leðurs og snyrtivara. Á meðan aðrar þjóðir henda 40-50% af fiskinum, nýtum við allt að 90% af hverjum fiski.“ Þór segir að verði þetta frumvarp að lögum sé það mikil viðurkenning fyrir starf Íslenska sjávarklasans. „Verði frumvarpið að lögum mun það gera sjávarbyggðum Bandaríkjanna kleift að gera betur í sínum sjávarútvegi, nýta auðlindir á umhverfisvænan hátt og skapa ný atvinnutækifæri,“ segir Þór.

Hann tekur fram að um sé að ræða virkilega spennandi verkefni sem hægt sé að vera stoltur af. Það sé afskaplega gott ef Íslendingar geti látið gott af sér leiða á sviði nýsköpunar í sjávarútvegi sem leiði til minni losunar.