Skeljungur, sem mun heita SKEL fjárfestingafélag ef aðalfundur félagsins samþykkir nafnabreytinguna í mars, er með „heilmikla fjárfestingagetu“ til að vera hreyfiafl til góðra verka. Þetta segir Ólafur Þór Jóhannesson, forstjóri fyrirtækisins, í viðtal við sjónvarpsþátt Markaðarins sem frumsýndur verður klukkan sjö í kvöld á Hringbraut.

Fram kemur í uppgjöri fyrir fjórða ársfjórðung að Skelungur sé með handbært fé upp á tólf milljarða króna og skuldlétt.

Ólafur Þór segir aðspurður um hvar hann sjái fyrir sér að fjárfesta, að mörg slík tækifæri komi á borð Skeljungs. Margir hafi áhugi á að fyrirtækið komi að verkefnum í ýmis konar rekstri.

Hann segir að það muni koma í ljós hve hratt verði fjárfest á næstunni. „Við erum ekki að flýta okkur. Við munum vanda okkur og taka hlutina með hæfilegri ró og skynsemi.“

Skeljungur hefur tekið umtalsverðum breytingum. Nýir hluthafar með Jón Ásgeir Jóhannesson stjórnarformann í stafni mótuðu nýja framtíðarsýn árið 2019 í því skyni að minnka vægi jarðefnaeldsneytis í rekstri og eignasafninu og fjölga stoðum í rekstri. Vægi jarðefnaeldsneytis í eignasafninu hefur minnkað úr 96 prósent í minna en helming á tímabilinu.

Á árunum 2020 keypti Skeljungur Löður og hlut í Gló, Brauð & Co og Lyfsalanum. Auk þess endurskipulagði það nýtingu á lóðum.

Skeljungur á jafnframt dótturfélögin Orkuna, Skeljung (sem selur til fyrirtækja) og rekur birgðageymslur undir hatti Gallons.

Í lok síðasta árs gekk Skeljungur frá sölu á Magni til Sp/f Orkufélagsins. Endanlegt kaupverð nam 12,2 milljörðum króna en Skeljungur er skuldbundinn til að endurfjárfesta 2,8 milljörðum króna í Orkufélaginu gegn því að eignast ríflega 48 prósenta hlut.

Þá skrifaði Skeljungur undir viljayfirlýsingu um sölu fasteigna fyrir 8,8 milljarða króna til fasteignaþróunarfélagsins Kaldalóns. Skeljungur á 20 prósent í Kaldalóni og 50 prósent í faseignaþróunarfélaginu REIR.

Stærsti hluthafi Skeljungs er Strengur með 50,06 prósenta hlut. Strengur er í eigu Sigurðar Bollasonar og eiginkonu hans, Nönnu Bjarkar Arngrímsdóttur; Ingibjargar Pálmadóttur og fasteignasalanna Þórarins A. Sævarssonar og Gunnars Sverris Harðarsonar. Eins og fyrr segir er Jón Ásgeir, eiginmaður Ingibjargar, stjórnarformaður Skeljungs en líka Strengs.