Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, mun taka sæti í stjórn íslenska nýsköpunarfyrirtækisins Kerecis á hlutahafafundi sem hefur verið boðaður fimmtudaginn 1. ágúst næstkomandi.

Í fundarboði til hluthafa Kerecis, sem Fréttablaðið hefur undir höndum, er greint frá því að Ólafur Ragnar hafi verið tilnefndur til þess að taka sæti í stjórn félagsins í stað Hilmars Braga Janussonar, forstjóra líftæknifyrirtækisins Genís á Siglufirði, en hann hefur verið í stjórn Kerecis frá árinu 2015.

Kerecis er með höfuðstöðvar sínar og framleiðslu á Ísafirði, sem er jafnframt heimabær Ólafs Ragnars, en félagið framleiðir afurðir sem byggðar eru affrumuðu þorskroði sem inniheldur fjölómettaðar fitusýrur. Afurðirnar hafa jákvæð áhrif á frumuvöxt og eru seldar til meðhöndlunar á þrálátum sárum og brunasárum.

Ólafur Ragnar, sem var forseti lýðveldisins á árunum 1996 til 2016, er í dag jafnframt stjórnarformaður hins árlega Arctic Circle-þings.

Virði Kerecis yfir tólf milljarðar

Kerecis lauk fyrr á þessu ári fjármögnun fyrir sextán milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði rúmlega tveggja milljarða króna. Félagið seldi þá nýtt hlutafé til núverandi hluthafa og nýrra fyrir um 1.250 milljónir og auk þess var kröfum skuldbreytt í hlutafé að upphæð um 750 milljónir.

Á meðal þeirra sem bættust þá við hluthafahóp Kerecis voru samtökin Emerson Collective, sem voru stofnuð af Laurene Powell Jobs, ekkju Steve Jobs, stofnanda Apple, en þau breyttu kröfum sínum á hendur íslenska nýsköpunarfyrirtækinu í hlutafé fyrir 390 milljónir og settu jafnframt inn nýtt fjármagn í félagið. Er Emerson Collective nú á meðal stærstu hluthafa Kerecis.

Miðað við almenna gengið í hlutafjárhækkuninni, um 2.000 krónur á hlut, gæti virði Kerecis verið allt að 12,4 milljarðar króna.

Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri Kerecis, sagði í samtali við Fréttablaðið í síðasta mánuði að hlutafjárhækkunin myndi styrkja félagið verulega. „Við ætlum að nota fjármunina til að halda áfram að bæta meðhöndlun sára með áherslu á sjúklinga í Bandaríkjunum.“

Tekjur Kerecis námu 4,6 milljónum dala, sem jafngildir um 575 milljónum króna, í fyrra borið saman við 1,7 milljónir dala árið 2017. Er gert ráð fyrir að tekjurnar meira en áttfaldist og verði komnar í 39 milljónir dala, jafnvirði 4,9 milljarða króna, á næsta ári, að því er fram kom í fjárfestakynningu sem Arion banki útbjó og sendi á fjárfesta fyrr á þessu ári.

Samtals starfa um 80 manns hjá fyrirtækinu, en þar af eru tólf starfsmenn á Ísafirði. Áætlað er að starfsmannafjöldinn tvöfaldist á næstu átján mánuðum við framleiðslu og gæðaeftirlit.