Ólafur Örn Ólafsson, veitingamaður á Vínstúkunni 10 sopum sem meðal annars er þekktur fyrir sjónvarpsþættina Kokkaflakk, vinnur að opnun þriggja nýrra veitingastaða í miðbænum. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu.

Veitingastaðurinn Bruggstofan & Honkytonk mun opna á Suðurlandsbraut 56 síðar í maí en þar mun verða reiddur fram amerískur grillmatur. Um er að ræða samstarf Vínstúkunnar 10 sopa og brugghúsins Reykjavík Brewing. Bjór frá brugghúsinu verður á boðstólum en Ólafur og félagar munu annast matseld. Ragnar Eiríksson, sem hlotið hefur Michelin-stjörnu, er á meðal eigenda Vínstúkunnar 10 sopa.

Snemma í sumar verður staðurinn Ó-le opnaður. Áherslan verður lögð á gott kaffi og sælkerasamlokur. Ó-le verður til húsa í Hafnargötu 11 þar sem Café au lait var áður.

Eigendur Vínstúkunnar 10 sopa munu jafnframt opna veitingastaðinn BRÚT í Pósthússtræti 2. „Þar ætlum við að opna mjög glæsilegan, bjartan og fallegan stað sem verður með áherslu á sjávarfang í hverri mynd sem hægt er að hugsa sér,“ segir Ólafur við Morgunblaðið.