Ólafur Daníelsson hefur tekið við af Þresti Söring sem framkvæmdastjóri Þróunar- og framkvæmda hjá FSRE. Þröstur mun verða Ólafi til stuðnings fram að áramótum er hann tekur við starfi á öðrum vettvangi.

FSRE varð til við sameiningu Framkvæmdasýslunnar og Ríkiseigna haustið 2021 og sér um að þróa, byggja og reka aðstöðu ríkisaðila sem notuð er til að veita borgurunum þjónustu. Stofnunin stýrir öflum húsnæðis og framkvæmdum við breytingar, endurbætur og nýbyggingar.

Ólafur hefur verið deildarstjóri sérhæfðs húsnæðis frá því í ágúst en hann kom til starfa hjá FSRE frá Eflu hf. Þar hafði hann unnið frá 2005, síðast sem svæðisstjóri fyrirtækisins á Suðurlandi og öðlaðist þar m.a. reynslu af stjórnun, verkefnastjórnun og hönnun mannvirkja.

Hann er með M.Sc. gráðu í Byggingaverkfræði og C-vottun IPMA í verkefnastjórnun. Þá hefur hann einnig lokið fjölmörgum námskeiðum í rekstri, stjórnun og byggingatengdum málefnum.