Tveir nýir framkvæmdastjórar hafa verið ráðnir til Arion banka. Ólafur Hrafn Höskuldsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri fjármálasviðs bankans. Hann tekur við af Stefáni Péturssyni, sem hefur komist að samkomulagi við bankann um starfslok eftir að hafa sinnt starfi framkvæmdastjóra fjármálasviðs og setið í framkvæmdastjórn bankans frá árinu 2010. Stefán mun láta af störfum á næstu dögum en sinna áfram ráðgjafarverkefnum fyrir bankann. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Ólafur Hrafn, sem tekur nú sæti í framkvæmdastjórn Arion banka, hefur stýrt stefnumótun og þróun á skrifstofu bankastjóra frá árinu 2019. Ólafur starfaði hjá Royal Bank of Scotland um sex ára skeið í London og New York en tók við starfi framkvæmdastjóra hjá Títan fjárfestingafélagi árið 2016, sem hann sinnti til ársins 2019. Þar áður vann hann meðal annars hjá CreditInfo í Þýskalandi og Straumi fjárfestingabanka. Ólafur Hrafn situr í stjórn Varðar og Landeyjar og er með Cand.oecon gráðu frá Háskóla Íslands.

Steinunn hefur undanfarin ár verið framkvæmdastjóri ráðgjafar og þjónustu hjá Verði.
Mynd/Aðsend

Steinunn Hlíf Sigurðardóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri upplifunar viðskiptavina og tekur sæti í framkvæmdastjórn. Steinunn hefur undanfarin ár verið framkvæmdastjóri ráðgjafar og þjónustu hjá Verði. Undir sviðið upplifun viðskiptavina falla meðal annars markaðsmál bankans og viðskiptaumsjón. Hlutverk sviðsins er að tryggja að upplifun viðskiptavina af þjónustu og þjónustuleiðum bankans, allt frá markaðssetningu til frágangs viðskipta, verði sem allra best. Stofnun sviðsins er einnig liður í auknu samstarfi Arion banka og Varðar og mótunar heildstæðrar fjármálaþjónustu sem er aðgengileg í gegnum fjölbreyttar og nútímalegar þjónustuleiðir.

Steinunn Hlíf hefur setið í framkvæmdastjórn Varðar frá árinu 2008. Hún starfaði hjá Kaupþingi/KB banka á árunum 1999-2005 og gegndi þar m.a. starfi markaðsstjóra. Steinunn starfaði einnig sem markaðsstjóri Sjóvár og forstöðumaður á sölu- og markaðssviði Landsbankans áður en hún hóf störf hjá Verði. Steinunn er með BA-gráðu í viðskiptafræði frá Flagler College.

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka.
Ljósmynd/Aðsend

„Ég vil þakka Stefáni Péturssyni fyrir afar gott samstarf og óska honum velfarnaðar í framtíðinni,“ segir Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka. „Stefán hefur verið einn af lykilstarfsmönnum Arion banka í rúman áratug og gegnt mikilvægu hlutverki í uppbyggingu og árangri bankans. Þar stendur upp úr að byggja aftur upp traust á bankanum á alþjóðlegum skuldabréfamörkuðum og skráning bankans í kauphallirnar á Íslandi og í Stokkhólmi árið 2018 sem markaði tímamót á íslenskum fjármálamarkaði. Ólafur Hrafn Höskuldsson, sem tekur nú við fjármálsviði Arion banka, þekkir bankann, stefnu hans og markmið afar vel eftir að hafa farið fyrir stefnumótun og viðskiptaþróun bankans í um tvö ár,“ segir hann.

Benedikt segir að á undanförnum árum hafi snertingum okkar við viðskiptavini fjölgað mikið. Þær hafi verið á síðasta ári að meðaltali 120 þúsund á dag og 99 prósent í gegnum stafrænar þjónustuleiðir eins og Arion appið og netbankann. „Kröfur viðskiptavina aukast jafnt og þétt eftir því sem aðgengi að fjármálaþjónustu verður greiðara og vægi stafrænnar þjónustu eykst. Krafa viðskiptavina varðandi þjónustu er skýr: upplifunin verður að vera jákvæð og hnökralaus. Það er því ekki að ástæðulausu sem við setjum á laggirnar sérstakt svið innan bankans sem hefur það meginhlutverk að samræma upplifun viðskiptavina af þjónustu og þjónustuleiðum bankans og gera hana enn betri. Hið nýja svið gegnir hér lykilhlutverki og það er mikill fengur fyrir okkur að fá Steinunni Hlíf Sigurðardóttur með sína miklu reynslu af fjármálamarkaði til að stýra sviðinu,“ sagði hann.