Ólafur William Hand er ekki lengur upplýsingafulltrúi Eimskips. Honum var sagt upp störfum samhliða breytingum á skipuriti félagsins og ráðningu nýs forstjóra í janúar.
Viðskiptablaðið greinir frá og segir að Ólafur muni starfa að ákveðnum verkefnum hjá Eimskip fram á vor. Elín Hjálmsdóttir, mannauðsstjóri félagsins, muni taka við starfi upplýsingafulltrúa. Þá muni Matthías Matthíasson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs, mun vera í forsvari fyrir markaðsdeild félagsins.
Ólafur starfaði sem upplýsingafulltrúi Eimskips í um tíu ár. Hann var í síðasta mánuði dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir ofbeldi gegn barnsmóður sinni, en sjálfur hafði hann stigið fram í fjölmiðlum og sakað barnsmóður sína um tálmun. Hann sendi frá sér yfirlýsingu í framhaldinu þar sem hann sagðist ætla að áfrýja dómnum.