Bandaríska stórfyrirtækið Amazon hefur látið undan þrýstingi og hækkað laun lægst settu starfsmanna sinna í Bandaríkjunum og Bretlandi. Sagt er að launahækkunin nái til 250 þúsund starfsmanna í Bandaríkjunum og um 17 þúsund í Bretlandi. Upprunalega var Amazon stofnað til að selja bækur gegnum internetið en þróaðist síðar út í allsherjar markaðstorg á netinu.

Nú til dags er félaginu nánast ekkert óviðkomandi, framleiðir eigið sjónvarpsefni og selur allt frá matvöru til einingahúsa, auk þess að skara fram úr í tækni er tengist heimsendingum. Þá má heldur ekki gleyma styrkustu tekjulind Amazon, skýjalausnum til varðveislu rafrænna gagna. Markaðsvirði Amazon er í dag ríflega ein trilljón Bandaríkjadala, og auðæfi stofnandans, Jeff Bezos, metin á um 150 milljarða dala. Fyrirtækjum á borð við Amazon, Google, Apple, Netflix og fleirum er oft hampað fyrir að hafa gert líf nútímamannsins auðveldara. Apple framleiðir tækin sem gera fólki kleift að nálgast hvað sem er nánast hvenær sem er. Í gegnum þessi tæki er hægt að versla á Amazon, leita á Google og horfa á Netflix.

Allir starfa þessir tæknirisar þvert á landamæri. Hefðbundnar tískuverslanir eiga undir högg að sækja vegna netverslunar, Apple útrýmdi farsímadeild Nokia með einu náðarhöggi, Google gerði alfræðiorðabókina óþarfa og Netflix gerir kvikmyndahúsum og hefðbundnum sjónvarpsrásum erfitt fyrir. Þá eru skýjalausnir Apple, Google og Amazon á góðri leið með að útrýma skjalaskápnum. Auðvitað er því rétt að þessi fyrirtæki hafa að langmestu bætt og einfaldað líf fólks.

Skuggahliðin er sú að fyrirtækin, sem eru alls staðar, virðast samt hvergi eiga heima. Nóg hefur verið rætt og ritað um skattalegan strúktúr bæði Apple og Amazon sérstaklega. Netflix starfar nánast alls staðar en þarf samt ekki að fylgja lögum í einstökum löndum hvað varðar textun og fleira. Það þurfa RÚV og Stöð 2 að gera með tilheyrandi kostnaði.

Risarnir njóta því ekki bara stærðarhagkvæmni heldur þurfa þeir ekki að fylgja lögum og reglum í sama mæli og fyrirtæki sem ekki eru jafn alþjóðleg. Auðvitað er óhófleg skattheimta ekki af hinu góða. Aðalmálið er að allir sitji þar við sama borð og eigi rétt á mannsæmandi kjörum. Alveg sama þótt skattaleg heimilisfesta vinnuveitandans sé á eyðieyju. Verkefnið á að vera að koma böndum á að alþjóðlegir risar geti óáreittir siglt undir sjóræningjaflaggi. Innlend fyrirtæki eiga auðvitað enga heimtingu á áframhaldandi tilvist, en þau þurfa samt að geta mætt samkeppni frá risunum á jafnréttisgrundvelli.

Stjórnarmaðurinn er sigldur innherji með puttann á púlsinum. Stjórnarmaðurinn skrifar í Markaðinn í Fréttablaðinu á miðvikudögum og liggur ekki á skoðunum sínum um menn og viðskiptaleg málefni.