Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið telur óhjákvæmilegt að tekið verði til athugunar breytt skipulag stjórnar makrílveiða. Ástæðan eru tveir dómar Hæstaréttar sem féllu í dag, í málum útgerðanna Hugins ehf. og Ísfélags Vestmannaeyja hf., vegna stjórnunar veiða á makrílstofninum árin 2011 til 2014.

Með dómunum var viðurkennt að skylt hafi verið árið 2011 að úthluta aflamarki til veiðanna og að veiðireynsla hafi talist samfelld á þeim tíma. Með þessu var álitið að fyrirkomulag veiðileyfa samkvæmt árlegum reglugerðum sjávarútvegsráðherra frá 2010-2013 um stjórn veiðanna, sem fólu í sér úthlutun til fleiri aðila en þeirra einna sem verið höfðu að veiðunum 2007-2010, hafi ekki samrýmst lögum. Þess í stað var á sínum tíma ráðstafað jafnhliða á aðra flokka skipa til að auka fjölbreytni við veiðarnar.

Ráðuneytið segir í tilkynningu að það hyggist fara yfir forsendur dóma Hæstaréttar ásamt ríkislögmanni og í kjölfarið ákvarða næstu skref. Víst sé að taka þurfi til athugunar breytt skipulag stjórnar á makrílveiðum.