„Ég hef fengið óheyrilega jákvæð viðbrögð frá almenningi, út um allt land,“ segir Skúli Mogensen, fyrrverandi forstjóri WOW air, um hópfjármögnun nýs flugfélags, í samtali við RÚV.
Fréttablaðið greindi frá því í morgun að Skúli og fyrrum starfsmenn WOW, sem huga að endurreisn félagsins, ætli að ráðast í svokallaða hópfjármögnun á netinu með það að markmiði að safna nægu fjármagni til þess að geta sett nýtt flugfélag á laggirnar. Lágmarksupphæð yrði um 670 milljónir króna.
Skúli segist hafa fengið mikil hvatningu til þess að bjóða almenningi að taka þátt í verkefninu, en lægstu framlögin verða í kringum 200 til 250 þúsund krónur.
Líkt og fram hefur komið hyggjast Skúli Mogensen og helstu lykilstarfsmenn WOW air, sem var tekið til gjaldþrotaskipta fyrir 11 dögum, endurvekja rekstur flugfélagsins. Þeir leita nú fjármögnunar upp á 40 milljónir dala, jafnvirði um 4,8 milljarða króna, til þess að standa straum af rekstrinum fyrstu misserin.
Fjársterkir aðilar tengdir ferðaþjónustunni hafa um helgina skoðað fjárfestingu í endurreisn WOW. Um er að ræða innlenda og erlenda fjárfesta.
Helsta fyrirstaða þess að Skúla takist ætlunarverkið að mati heimildarmanna blaðsins er sú að tímaramminn sé of þröngur. Vélarnar sem Skúli hyggst taka á leigu muni ekki standa auðar mikið lengur en út vikuna.