Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ógilti fyrr í dag samruna risafyrirtækjanna Siemens og Alstom með þeim röksemdum að samruninn hefði getað leitt til verðhækkana og dregið úr samkeppni á lestamarkaði, evrópskum farþegum til tjóns.

Margrethe Vestager, yfirmaður samkeppnismála hjá Evrópusambandinu, greindi frá ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar í morgun en hún er í samræmi við álit eftirlitsstjórnvalda í heimaríkjum fyrirtækjanna, Þýskalandi og Frakklandi, sem höfðu áður rannsakað kaupin ítarlega.

„Fyrirtækin voru ekki viljug til þess að bregðast við alvarlegum samkeppnislegum áhyggjum okkar,“ sagði Vestager.

Fyrirtækin, þýski iðnrisinn Siemens og franski lestarsmiðurinn Alstom, sögðu samrunann nauðsynlegan til þess að mæta vaxandi og oft á tíðum ósanngjarnri samkeppni frá Kína. Bruno Le Maire, fjármálaráðherra Frakklands, lét hafa eftir sér, eftir að niðurstaða evrópskra samkeppnisyfirvalda lá fyrir, að niðurstaðan þjónaði fyrst og fremst hagsmunum Kínverja.

Peter Altmaier, efnahagsráðherra Þýskalands, kvaðst einnig ósáttur við niðurstöðuna og sagði að þýsk og frönsk stjórnvöld ynnu nú að því að breyta evrópskum samkeppnisreglum.

Tekjur sameinaðs félags Siemens og Alstom hefðu numið um 15 milljörðum evra, jafnvirði um 2.050 milljarða króna, á ári. Vonir stjórnendanna stóðu til þess að með samstarfi undir merki Siemens-Alstom yrði til evrópskur risi sem gæti látið að sér kveða um allan heim og þá sér í lagi í samkeppninni við kínverska ríkisrisann CRRC, stærsta framleiðanda lesta í heiminum.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tók ekki undir þessi sjónarmið og sagði ólíklegt að Kínverjar hæfu sölu á lestum í Evrópu á næstunni, eftir því sem fram kemur í umfjöllun Financial Times.